fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Segir að Pútín hafi spilað of djarft – Blekkingin var afhjúpuð

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 4. nóvember 2022 07:00

Pútín er líkt við pókerspilara.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á laugardaginn gerðu Úkraínumenn árás á rússnesk herskip úti fyrir höfninni í Sevastopol á Krímskaga. Rússnesk yfirvöld hafa staðfest að einn tundurduflaslæðari hafi skemmst. Auk þess bendir allt til að freigátan Makarov aðmíráll hafi skemmst. Ekki liggur enn fyrir hversu miklar skemmdir urðu á skipunum.“

Svona hefst grein eftir Jacob Kaarsbo, sérfræðing hjá hugveitunni Europa í Danmörku og fyrrum sérfræðing hjá leyniþjónustu danska hersins, á vef TV2. Í henni fjallar hann um fyrrnefnda árás Úkraínumanna og viðbrögð Vladímír Pútíns í kjölfarið en hann sagði að Rússar myndu draga sig út úr samningnum við Úkraínu sem heimilar kornútflutning frá Úkraínu um Svartahaf.

Kaarsbo bendir á að Sevastopol sé og hafi sögulega séð verið mjög mikilvæg flotahöfn í Svartahafi. Þegar Úkraína fékk sjálfstæði 1991 fengu Rússar heimild til að nota höfnina fyrir Svartahafsflota sinn. Sá samningur var endurnýjaður nokkrum sinnum og þegar Pútín innlimaði Krím 2014 höfðu Rússar tryggt sér afnot af flotastöðinni til 2042 með möguleika á framlengingu í fimm ár.

„Árásin er dæmi um að Rússar geta ekki sjálfir tryggt öryggi mikilvægra skotmarka,“ segir Kaarsbo.

Hann víkur síðan að viðbrögðum Rússa við árásinni þar sem þeir tilkynntu samdægurs um að þær myndu draga sig út úr samningnum um kornútflutning Úkraínumanna. Það er samningur sem Tyrkir og SÞ höfðu milligöngu um að koma á.

Rússar sögðu að árásin á herskipin í Sevastopol hafi verið gerð í skjóli kornútflutnings og að ráðist hefði verið á rússnesk herskip sem komu að því að tryggja öryggi kornútflutningsins. Rússar reyndu þar með að varpa sökinni á Úkraínu og kenna Úkraínumönnum um skemmdarverk á kornútflutningnum sem fer að stórum hluta til Afríku og Miðausturlanda þar sem mikil þörf er fyrir kornið.

„En hér misreiknaði Pútín sig. Erdogan, Tyrklandsforseti, keypti þessar skýringar ekki og hann hafði lagt mikinn persónulegan metnað í að koma samningnum á. Hann hafði ekki í hyggju að láta hann eyðileggjast. Af þeim sökum setti hann hnefann í borðið: Kornútflutningurinn skyldi halda áfram og Tyrkland og SÞ myndu ábyrgjast hann,“ skrifar Kaarsbo og bætir við að í stuttu máli sagt sé málið að Erdogan hafi lesið rétt á spilin og séð að Rússar þora ekki að stöðva kornflutningaskipin með hervaldi en það hefði verið eina leiðin til að stöðva þau. Tyrkneski flotinn sé miklu öflugri en rússneski Svartahafsflotinn og Tyrkir eru í NATO. „Út fyrir pólitískar afleiðingar á heimsvísu fyrir Rússa ef þeir hefðu ráðist á kornflutningaskipin, þá hefði verið verið hernaðarlegt sjálfsmorð,“ segir Kaarsbo.

Strax á mánudaginn fóru Rússar að draga í land með hótanir sína og sögðust ekki hafa hætt þátttöku í samningnum, þeir hefðu aðeins gert tímabundið hlé á henni. Þeir vildu frá tryggingu fyrir að Úkraína notaði ekki kornflutningana í hernaðarlegum tilgangi.

Á þriðjudaginn var þrýst mjög á Rússa á vettvangi SÞ um að virða samninginn.

Á miðvikudaginn tilkynntu Rússar að þeir myndu aftur taka þátt í að uppfylla samninginn. Það gerðist eftir langt símtal Pútíns og Erdogan. „Eftir stendur mynd af Pútín sem ofmat spilin sín. Á móti honum stendur Erdogan sem sigurvegari. Hann sá í gegnum blekkingu Pútíns og kom í veg fyrir kornskort á heimsvísu,“ segir Kaarsbo.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump