Réttað var í dag, í Héraðsdómi Reykjavíkur, yfir manni sem sakaður er um að hafa keypt vændi af konu snemma vors 2021 og síðan frelsissvipt konuna og misþyrmt henni hrottalega.
DV hefur ákæruna í málinu undir höndum en þar er lýst einstaklega hrottalegu kynferðisofbeldi og líkamlegu ofbeldi. Atvikið átti sér stað í kjallaraherbergi húss sem maðurinn bjó í, þann 19. apríl 2021. Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun, kaup á vændi, sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu.
Maðurinn er sagður hafa greitt konunni 50 þúsund krónur fyrir vændi og eftir að vændisþjónustunni lauk hafi hann varnað konunni útgöngu úr herberginu og svipt hana frelsi í að minnsta kosti þrjár klukkustundir. „…á þeim tíma þvingaði ákærði hana endurtekið, án samþykkis, til samræðis, endaþarmsmaka, munnmaka og til að sleikja á honum endaþarminn, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, en ákærði tók hana að minnsta kosti tvisvar sinnum hálstaki og sló hana endurtekið í andlit og búk, með þeim afleiðingum að A hlaut brot á augntóttargólfi og á vanga- og kinnkjálkabeinum vinstra megin, mar í andliti, á hálsi og á vinstri upphandlegg, húðblæðingar á hálsi og punktblæðingar í andliti og í slímhúðum augna og í munnslímhúð, og yfirborðsáverka í andliti og á búk,“ segir í ákæru héraðssaksóknara.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan sem varð fyrir árásinni gerir kröfu um miskabætur upp á sex milljónir króna.
Sem fyrr segir var aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Búast má við að dómur falli í málinu fyrir mánaðamót.