Tilkynnt var um herkvaðningu 300.000 rússneskra karla í september og er búið að senda um 82.000 af þeim á vígvöllinn í Úkraínu. Breska varnarmálaráðuneytið telur að margir þeirra séu með gömul vopn, allt frá því á sjötta áratugnum. Sky News skýrir frá þessu.
Myndir benda til að hermenn hafi fengið riffla sem eru rúmlega sextíu ára gamlir. Vitað er að Rússar eiga í erfiðleikum með birgðaflutninga og við að afla sér nauðsynlegra aðfanga.
Í færslu varnarmálaráðuneytisins á Twitter um gang stríðsins segir að í september hafi margir rússneskir herforingjar haft áhyggjur af að nýju hermennirnir myndu koma vopnlausir til Úkraínu.
Ráðuneytið segir að út frá ljósmyndum megi ráða að margir nýliðanna hafi fengið AKM riffla sem komu fyrst fram á sjónarsviðið 1959. Segir ráðuneytið að margir þeirra séu líklega varla nothæfir eftir að hafa verið geymdir við slæm skilyrði.
AKM rifflarnir nota 7.62 mm skot en hefðbundnar rússneskar hersveitir eru aðallega vopnaðar AK-74M og AK-12 rifflum sem nota 5.45 mm skot. Þetta þýðir að nú verða Rússar að flytja tvær tegundir skotfæra fram í víglínuna í stað einnar. Ráðuneytið telur að þetta muni gera birgðaflutninga Rússa enn flóknari en áður.