Læknirinn Árni Tómas Ragnarsson sinnti gigtlækningum megnið af starfsævi sinni en á efri árum hefur meira af tíma Árna farið í að liðsinna fíklum. Þetta kemur fram í grein Árna í Morgunblaðinu í dag en þar lýsir hann stöðu fíkla í samfélaginu og afstöðu sinni til skaðaminnkunar.
Árni skrifar:
„En nú á síðustu árum hefur rekið á fjörur mínar fólk með annars konar vandamál, fólk sem hefur þurft á brýnni aðstoð að halda en ekki fengið hana frá heilbrigðiskerfinu nema að litlu leyti. Þetta er fólk eins og flest við hin en hefur búið við fordóma, fyrirlitningu og útskúfun vegna sjúkdóms síns. Hér er ég að tala um fólkið sem er með fíknisjúkdóma – í mismiklum mæli, sumir fárveikir af sjúkdómi sínum. Nær allir sem ég hef hitt og sinnt eru góðar manneskjur, en ráða ekki við sjúkdóm sinn og vilja alls ekki hafa hann. Flestir hafa byrjað að sprauta sig með morfíni á unga aldri, oft 12-14 ára, og leita til mín 20 árum síðar í skelfilegum vanda. Allt líf þessa fólks hefur litast af sjúkdómnum og það hefur ekki fengið bata þótt því hafi verið veitt meðferð á Vogi, Landspítalanum og víðar og verið lagt þar inn í 20 skipti eða oftar án árangurs. Það byrjar að sprauta sig aftur daginn sem það er útskrifað.“
Árni segir að flest þetta fólk sé góðar manneskjur en þau hafi ánetjast fíkn sem neyði þau til að kaupa rándýr efni, sem leiði óhjákvæmilega til afbrota:
„Það kaupir skítugt og dýrt sprautuefnið á götunni af vafasömu fólki og styrkur skammtsins er sjaldnast mjög áreiðanlegur. Stundum er hann mjög útþynntur og hjálpar þá lítið við fíkninni, en stundum þrælsterkur og drepur með öndunarlömun. Þar fyrir utan eru allar sýkingarnar, bæði HIV og bakteríurnar, sem þetta veika fólk fær með skítugu efninu.
En eins og þetta sé ekki nóg. Fíklar eru að minni reynslu yfirleitt góðar manneskjur að upplagi, en þegar þeir hafa ánetjast fíkninni þurfa þeir að fjármagna þessi rándýru efni. Þá er engin leið til að halda sér á floti í lífinu önnur en að stela til að fjármagna næsta skammt. Þeir vilja ekki stela, en verða að gera það til að lifa af. Þeir vakna á morgnana fullir kvíða yfir því hvort þeir nái að stela fyrir næsta skammti. Þeim líður ömurlega þangað til það tekst.“
Árni segir að fíklar séu fyrirlitnir af öllum, líka fjölskyldum sínum. Þeir séu bjargarlausir en enginn vilji koma þeim til bjargar. Skaðaminnnkandi aðgerðir Rauða krossins og Frú Ragnheiðar hafi þó forðað fíklum frá sýkingum þar sem það gerði þeim kleift að komast yfir hreinar sprautur. Hins vegar hafi sprautuefnin sjálf verið áfram óhrein og hættuleg og þar hafi komið til kasta lækna eins og hans, sem hafi gripið til skaðaminnkandi aðgerða. Þær aðgerðir kunna að vera umdeildar en Árni segir svo frá þeim:
„Ég og nokkrir aðrir læknar tókum upp samstarf við Frú Ragnheiði og fengum ábendingar um það hverjir væru mest veikir og vel treystandi. Við fórum því að skrifa út lyfseðla með stórum skömmtum af morfíni, sem fíklarnir gátu sótt í apótek, einn dagskammt í einu af hreinu efni í stöðluðum styrkleika. Þetta hefur verið hálfgert feimnismál, en það hefur verið sannfæring okkar að með þessu séum við að minnka skaðann fyrir þessa skjólstæðinga okkar – rétt eins og fyrir aðra. Þetta hefur gengið skínandi vel, heilsa og líðan skjólstæðinga okkar hefur stórbatnað og margir hafa tekið stórt skref út í lífið, fengið sér vinnu og betra húsnæði, kvíðinn hefur minnkað og þeir þurfa ekki lengur að stela til að geta lifað af.“
Árni segir að læknarnir geri þetta á eigin ábyrgð, alla yfirstjórn slíkra aðgerða skorti en hún þyrfti að vera til staðar. Árni sendir því frá sér þessa áskorun:
„Ég skora á Landlæknisembættið að taka á þessum málum af festu þannig að þeir sem vilja veita þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu þurfi ekki lengur að laumupokast með þetta.
Fíklar – fólk með ólæknandi fíknisjúkdóm – eiga sama rétt og aðrir til að minnka skaðann af sjúkdómi sínum!“