Á fyrsta tímanum í nótt var akstur ökumanns stöðvaður í Árbæjarhverfi. Reyndist hann vera sviptur ökuréttindum. Vettvangsskýrsla var gerð um málið. En ökumaðurinn hefur greinilega ekki áhyggjur af því að hann er sviptur ökuréttindum því 15 mínútum eftir að afgreiðslu málsins lauk var hann aftur stöðvaður í akstri á sömu bifreiðinni. Önnur vettvangsskýrsla var skrifuð og hald lagt á lyklana að bifreiðinni.
Klukkan 00.35 var ökumaður handtekinn grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.
Klukkan 2 var ökumaður handtekinn grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda.
Á tíunda tímanum í gærkvöldi var akstur ungrar konu stöðvaður þar sem hún notaði ekki stefnumerki við aksturinn. Hún reyndist vera svipt ökuréttindum. Hún reyndi að villa um fyrir lögreglunni með því að gefa upp ranga kennitölu og að auki fór hún ekki að fyrirmælum lögreglunnar.