DV skýrði frá þessum nýju vendingum í málinu á mánudaginn.
Nú segir VG að efnahagsbrotadeild lögreglunnar hafi verið að rannsaka mál tengd manninum og hafi meðal annars lagt hald á tölvu í hans eigu. Í henni fannst mynd af vegabréfi Ole Henrik Golf. Vegabréf hans, fölsuð, og fleiri persónuupplýsingar hafa verið misnotaðar í mörgum málum.
Lögreglan veit að einn eða fleiri, sem áttu hlut að máli varðandi hvarf Anne-Elisabeth, hafa notað þessar upplýsingar.
Þær voru meðal annars notaðar til að stofna netfang, á hans nafni, sem var síðan notað til að stofna reikninga hjá fjölda rafmyntamarkaða en þeir hafa komið mikið við sögu við rannsókn málsins.
Þegar efnahagsbrotadeildin fann myndina var þeim, sem rannsaka hvarf Anne-Elisabeth, tilkynnt um málið. Lögreglan gengur út frá því að Anne-Elisabeth hafi verið myrt.
Lögreglan telur sig geta tengt myndina af stolna vegabréfinu við manninn. Hvorki maðurinn né verjandi hans vildu tjá sig um málið við VG.