Í umfjöllun MailOnline segir að Pútín sé örvæntingarfullur. Her hans sé í tætlum, bardagaáætlanirnar einnig og hann sé langt kominn með að eyða varaliðshermönnum sínum og nú sé vetur að fara að skella á. Á sama tíma haldi sigurganga úkraínska hersins áfram og hafi opnað leið Úkraínumanna til sigurs í stríðinu. Það veki upp spurninguna um hvað gerist ef Rússar tapa?
Alp Sevimlisoy, hjá hugveitunni Atlantic Council, ræddi við MailOnline um hvað geti gerst ef Rússar tapa stríðinu.
Hann sagði að Pútín muni ekki standa ósigur af sér og að Rússland geti gliðnað í sundur og Vesturlönd muni þá etja kappi við Kína um að hirða leifarnar.
Hann sagði að Vesturlönd verði að fara að byrja að undirbúa sig undir þessa sviðsmynd, að öðrum kosti muni það opna dyrnar fyrir Kínverja til að láta að sér kveða á svæðum eins og Síberíu, Miðasíu, Afríku og Suður-Ameríku þar sem þeir séu nú þegar komnir með tærnar inn fyrir þröskuldinn. Þeir muni sjá sóknarfæri þegar áhrif Rússa þverra.