John Bolton, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna og sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í samtali við Sky News að Pútín sé nú „í meiri vandræðum en nokkru sinni síðan innrásin hófst“.
Hann sagði að „innlimun“ fjögurra hertekinna svæða í austur- og suðurhluta Úkraínu í kjölfar atkvæðagreiðslna hafi greinilega átt að efla móralinn hjá Rússum að mati Pútíns og koma að gagni við að draga upp ný landamæri að Úkraínu. „En staðreyndin er, að minnsta kosti miðað við heimssýn Pútíns, að nú er barist á „rússnesku landi“ og að rússneska hernum gengur ekki vel. Ég held því að þetta bæti enn á pólitísk vandamál Pútíns innanlands og auki líkurnar á að Rússar beiti kjarnorkuvopnum,“ sagði hann.
„Af því að barist er á „rússnesku landi“ held ég að Pútín geti talið það ógn við stjórn hans og það gætu verið aðstæður þar sem notkun kjarnorkuvopna verður líklegri en áður,“ sagði hann einnig.
Þegar hann var spurður hvernig Bandaríkin muni bregðast við ef Rússar beita kjarnorkuvopnum, sagði Bolton: „Ég held að það þurfi ekki endilega að vera með kjarnorkuvopnum, en það fer eftir því hvað Rússar gera. En ég held að við getum sagt að það jafngildi því að Vladímír Pútín undirriti eigið sjálfsvígsbréf ef hann heimilar beitingu vígvallarkjarnorkuvopna.“