Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðingur við danska varnarmálaskólann, segir að líklega hafi Rússar beðið eftir tækifæri til að segja samningnum upp vegna þess að þeim hafi ekki gengið vel á vígvellinum. Með uppsögn samningsins geti þeir kannski pressað á Úkraínu.
Hann sagði að Rússar hafi verið ósáttir við samninginn í töluverðan tíma því hann þýddi að Úkraínumenn gátu flutt gríðarlegt magn af korni úr landi. Þetta hafi einfaldlega gengið of vel hjá Úkraínumönnum.
„Út frá þessu þá getur þetta vel líkst því að Rússar hafi fundið ástæðu til að gera þetta,“ sagði hann að sögn danskra fjölmiðla.
Rússar segja að ástæðan fyrir uppsögn samningsins sé að Úkraínumenn hafi ráðist á flotastöðina í Sevastopol á Krím og rússnesk herskip. Nielsen sagði að líklega hafi Úkraínumenn staðið á bak við árásina en að uppsögn kornsamningsins tengist árásinni ekki neitt, það sé ekki hægt að sjá tengsl á milli árásarinnar og samningsins.