fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Íbúi í Ólafsfirði fékk ískyggilegt símtal eftir voðaverkið í nótt: „Núna hefur eitthvað slæmt gerst“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 3. október 2022 14:50

Ólafsfjörður. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem býr nálægt vettvangi voðaatburðar á Ólafsfirði í nótt fékk símtal frá vini hins látna um það leyti sem voðaverkið var framið. Maðurinn greinir frá þessu í viðtali við DV en nýtur nafnleyndar vegna þess hve málið er viðkvæmt. Maður sem hafði búið hjá hinum látna hringdi í íbúann og sagði: „Núna hefur eitthvað slæmt gerst.“ Maðurinn sagði að sá sem lést skömmu síðar hefði rokið út úr húsi og farið á staðinn þar sem atburðurinn varð til að sækja eiginkonu sína.

Sjá einnig: Karlmaður stunginn til bana á Ólafsfirði í nótt

Atburðurinn átti sér stað í fjölbýlishúsi í miðbæ Ólafsfjarðar. Þar voru í það minnsta tvær konur, eiginkona hins látna og húsráðandi á staðnum. Báðar þessar konur voru handteknar vegna rannsóknar málsins. Þar var einnig maður einn, sem einnig var handtekinn, en hann og hinn látni höfðu átt í deilum vegna eiginkonu hins látna.

Margt er enn á huldu varðandi atburðinn. Í fyrstu var bendlaður við voðaverkið maður sem býr á Ólafsfirði og hinn látni hafði sakað um að  ætla að drepa sig. Hafði hann birt slíkar ásakanir í myndbandi á Facebook-síðu sinni. DV hefur rætt við þennan mann og fengið staðfest að hann var ekki á staðnum og hefur ekki verið handtekinn vegna rannsóknarinnar.

Annar karlmaður er hins vegar á meðal hinna handteknu og sem fyrr segir höfðu hinn látni og sá maður átt í deilum um eiginkonu hins látna, sem er á meðal þeirra sem lögregla hefur í haldi sínu.

Lögreglubílar, sjúkrabílar og sérsveitarbíll

Þetta var um þrjúleytið í nótt og íbúinn áðurnefndi sá sjúkrabíla og lögreglubíla aka framhjá húsi sínu. Fór hann út úr húsi og nálægt vettvangi til að fylgjast með. „Ég var vakandi. Forvitnin bar mig ofurliði þannig að ég fór út með hundinn og labbaði smáhring. Ég sá ekki betur en það væru þrír sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar. Á meðan ég var úti sá ég síðan sérsveitarbílinn koma á öðru hundraðinu í gegnum bæinn.“

Maðurinn segist hafa beðið í nokkurri fjarlægð frá húsinu en sá ekki lögreglu koma út aftur. „Þegar ég var að labba í burtu heyrði ég einhver hróp og köll og greinilega verið að leiða einhverja í burtu.“

Sem nærri má um geta eru íbúar á Ólafsfirði slegnir óhug vegna málsins. Maðurinn segir að þeir sem tengjast málinu hafi átt erfitt í lífinu, m.a. vegna fíkniefnaneyslu. Hann segir að konan sem bjó í íbúðinni þar sem voðaverkið var framið hafi verið nýflutt í íbúðina, en hún leigir hana. Hafði hún búið þarna í nokkrar vikur. Er þessi kona á meðal hinna handteknu en leiða má líkur að því að allir viðstaddir hafi verið handteknir vegna rannsóknarhagsmuna.

Sem fyrr segir fór hinn látni á staðinn til að sækja eiginkonu sína. Var hann í miklu uppnámi. „Það var þarna gamall vinur hennar að sunnan og þeir höfðu eldað grátt silfur saman og út af henni,“ segir íbúinn. Hann segir ennfremur:

„Það hringdi í mig maður, gamall kunningi, sem hefur búið hjá honum undanfarið og sagði: Nú hefur eitthvað slæmt gerst.“ Að sögn þessa vinar hafði hinn látni rokið út til að sækja eiginkonu sína í íbúðina. Eftir það hafa að öllum líkindum brotist út átök milli mannanna.

„Í mínum huga hefur soðið upp úr endanlega því þeir hafa lengi verið að kýta út af þessari konu,“ segir maðurinn ennfremur.

Kyrrðarstund í kirkjunni

„Ég veit auðvitað ekki hvað gerðist nákvæmlega en ég veit að þeir höfðu mikið verið að rífast undanfarið,“ segir íbúinn um hinn látna og manninn sem var á vettvangi og er í haldi lögreglu.

Íbúinn segir marga Ólafsfirðinga vera á ferli í bænum og ræða málið sín á milli, enda viðrar vel í dag. „Það er búið að opna kirkjuna og boðið upp á kaffi, þannig að fólk geti komið og spjallað.“

Maðurinn segir að lögregla sé enn að störfum á vettvangi, þar sé m.a. sendibíll frá tæknideild lögreglunnar.

Þess má geta að kyrrðarstund verður haldin í Ólafsfjarðarkirkju í kvöld kl. 20.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“