Ungur maður var þann 26. október sakfelldur fyrir líkamsárás sem átti sér stað fyrir utan verslun í Reykjanesbæ.
Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 13. mars síðastliðinn. Meðal vitna sem kölluð voru fyrir dóminn var ung stúlka sem var inni í versluninni þessa nótt. Sagði hún árásarþolann hafa verið með dólgslæti og kynþáttafordóma er hann kom inn í verslunina. Hann réðst síðan á mann inni í versluninni og bárust átök þeirra út fyrir verslunina þar sem maðurinn sem hann réðst á barði hann.
Fékk árásarþolinn fjögur hnefahögg í andlitið. Árásarmaðurinn játaði árásina að mestu auk þess sem sönnunargögn voru um hana í upptökum úr öryggismyndavélum. Árásarþolinn taldi að stúlkan hefði sent mennina til að ráðast á sig.
Árásarmaðurrinn játaði brot sitt en hann hefur ekki gerst brotlegur við lög áður. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf auk þess að greiða allan sakarkostnað málsins. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.