Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að biðin geti varað í tvö til þrjú ár.
Þetta kom fram á málþingi ADHD-samtakanna í gær en þar var fjallað um samfélagslegan kostnað af völdum ómeðhöndlaðs ADHD.
Meðal frummælenda var Haraldur Erlendsson, geðlæknir. Hann sagði að vanmat á algengi ADHD megi meðal annars rekja til að ekki sé um eina röskun að ræða heldur blöndu einkenna sem fólk glími við. „Við erum stórlega að vanmeta vandann,“ sagði hann.
Á málþinginu kom fram að vangreining hafi mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið. Fólk sem fái ekki greiningu og meðferð og síðar lyfjagjöf missi af tækifærum og lífsgæðum. Þetta eigi við um brottfall úr námi og störfum, kulnun í vinnu, hjónaskilnaði og leiði til fíknar, sjálfsvíga, slysa og glæpa.