Ótrúleg frásögn eins bæjarbúa getur hafa átt sinn þátt í að afhjúpa leyndarmál Pútíns og varpa ljósi á lygar hans um stríðið.
CNN skýrir frá þessu. Segir miðillinn að aðalpersónan í málinu sé nefnd Andrei, það er þó ekki rétt nafn viðkomandi en því er haldið leyndu vegna öryggis hans. Andrei starfaði sem læknir í Mazyr. Fljótlega eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fengu Andrei og starfsbræður hans ný verkefni.
Þeir áttu ekki lengur að annast bæjarbúa, heldur hermenn sem særðust í stríðinu. Þeim var skipað að spyrja engra spurninga, bara gera það sem þeim var sagt.
En þetta hugnaðist Andrei ekki og fljótlega pakkaði hann föggum sínum niður og lagði á flótta ásamt fjölskyldu sinni. Förinni var heitið til Litháen.
Í ferðatösku þeirra voru allar eigur þeirra og einn ótrúlega mikilvægur hlutur. Það var minnislykill sem var falinn í bangsa dóttur hjónanna.
Á minnislyklinum voru sannanir fyrir alvarlegum áverkum hermanna og sögur ungra manna sem var sagt að þeir væru að fara á heræfingu en enduðu í miðju grimmdarlegu stríði.
Í frétt CNN um málið eru allt frá röntgenmyndum til mynda af skotum birtar. Þessu geta hvítrússnesk yfirvöld ekki brugðist við á neinn hátt þótt þau vilji það gjarnan en þau eru algjörlega undir hæl Pútíns og sitja og standa eins og honum þóknast.