Í ræðu, sem Pútín flutti í gær, gerði Pútín lítið úr kjarnorkuvopnaorðaskaki Rússa að undanförnu og sagði þá ekki hafa í hyggju að beita kjarnorkuvopnum í Úkraínu og hafi aðeins verið að bregðast við „kjarnorkuvopnakúgun“ vestrænna leiðtoga.
„Ef hann hefur þetta ekki í hyggju, af hverju er hann þá alltaf að tala um þetta?“ sagði Biden þegar hann ræddi um ummæli Pútíns.
„Af hverju er hann að tala um getu Rússa til að beita vígvallarkjarnorkuvopnum? Hann hefur nálgast þetta á mjög hættulegan hátt,“ sagði Biden.
Frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu hafa Pútín og rússneskir embættismenn ítrekað sagt að Rússar geti beitt kjarnorkuvopnum til að vernda fullveldi landsins. Á Vesturlöndum hafa þessi ummæli verið túlkuð sem óbeinar hótanir um að kjarnorkuvopnum verði beitt til að vernda þau úkraínsku héruð sem Rússar segjast hafa „innlimað“.