Tæpur fjórðungur barna og ungmenna, eða 23 prósent, á aldrinum 9-18 ára hafa upplifað einelti á netinu, í símanum eða tölvuleikjum síðustu 12 mánuði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um auglýsingalæsi og upplifun barna og ungmenna á netinu.
Strákar eru líklegri til að segjast hafa upplifað einelti en stelpur. Á miðstigi skóla, 4.- 7. bekk hafa 24 prósent stráka og 15 prósent stelpna upplifað slíkt. Um einn af hverjum fjórum strákum á unglinga- eða framhaldsskólastigi hefur fengið hótanir einu sinni eða oftar á netinu og svipað hlutfall stelpna á sama aldri hefur upplifað útilokanir frá hópum á netinu.
Stúlkur eru líklegri en strákar til að hafa upplifað að myndir væru birtar af þeim sem olli þeim vanlíðan eða reiði. Í grunnskóla voru slíkar myndbirtingar rúmlega tvöfalt líklegri á unglingastigi en á miðstigi.
Börnin og ungmennin í rannsókninni voru einnig spurð hvort foreldrar þeirra deili af þeim myndum á samfélagsmiðlum. Foreldrar stúlkna voru líklegri til að deila myndum af þeim en foreldrar stráka og fjórir af hverjum tíu nemendum í grunnskóla segja foreldra sína biðja um leyfi fyrir myndbirtingunni en í framhaldsskóla er hlutfallið þrír af hverjum tíu foreldrum.
Um 17 prósent barna og ungmenna á aldrinum 9-18 eru ósátt við mynddeilingar foreldra sinna af þeim eða þykja þær vandræðalegar en hlutfallið er hæst meðal stúlkna í unglingadeild grunnskóla, 8.-10. bekk.
Framkvæmd könnunarinnar var rafræn með úrtaki skólanemenda á aldrinum 9-18 ára og náði til 5.911 nemenda. Þar af 4.802 grunnskólanemendur í 4. – 10. bekk og 1.109 framhaldskólanemendur.
Hér má lesa niðurstöðurnar í heild sinni