Þessar tölur Úkraínumanna hafa ekki verið staðfestar. Rússnesk yfirvöld halda upplýsingum um mannfall rússneska hersins þétt að sér.
En tölur Úkraínumanna eru „líklega raunhæfari en flestir trúa“ sagði Jacob Kaarsboo, sérfræðingur hjá hugveitunni Tænketanken Europa og fyrrum sérfræðingur hjá leyniþjónustu danska hersins, í samtali við TV2.
Hann sagði að tölurnar séu líklega of háar en séu þó ekki langt frá markinu. „Mitt mat er að maður getur líklega dregið 25% frá tölum Úkraínumanna,“ sagði hann og bætti við að þótt þessi 25% séu dregin frá, þá séu tölurnar „rosalega háar“.
Загальні бойові втрати противника з 24.02 по 25.10 орієнтовно склали / The total combat losses of the enemy from 24.02 to 25.10 were approximately pic.twitter.com/P1rsHipm2z
— Генеральний штаб ЗСУ (@GeneralStaffUA) October 25, 2022
Í upphafi stríðsins var mannfallið hjá úkraínska hernum mjög mikið en á síðustu vikum hefur þetta snúist við og nú er það úkraínski herinn sem er með vind í seglin og stýrir gangi mála á vígvellinum.
Sérfræðingar telja að mannfall úkraínska hersins í dag sé um einn þriðji af mannfalli rússneska hersins.
Til viðbótar þeim 68.420 rússnesku hermönnum, sem Úkraínumenn segja að hafa fallið, verður að bæta við særðum hermönnum, þeim sem hafa lagt á flótta og þeim sem hafa verið handsamaðir af Úkraínumönnum. Kaarsbo sagði að reikna megi með að þessi tala sé að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri en tölur um mannfall.
Samkvæmt opinberum rússneskum tölum hafa tæplega 6.000 rússneskir hermenn fallið í stríðinu en Moscow Times hefur eftir heimildarmönnum í Kreml að allt að 90.000 rússneskir hermenn hafi fallið eða særst eða sé saknað.