Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að Prigozhin, sem hefur oft verið nefndur „Kokkur Pútíns“ sé einn þeirra sem nú takast á bak við tjöldin í Kreml um hver verði arftaki Pútíns í forsetaembættinu.
The Institute for the Study of War (ISW) birti í gær daglega stöðuskýrslu sína um gang stríðsins og eitt og annað því tengt. Meðal annars kemur fram að Kyryolo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, hafi sagt að „Kokkurinn“ haldi áfram að sölsa undir sig völdum og sé að byggja upp her sem líkist rússneska hernum að uppbyggingu. Þetta geti orðið ógn við Pútín.
ISW segir að rússneskir herbloggarar segi að Prigozhin fjármagni stofnun sjálfboðaliðaherdeilda sem Igor Girkin, sem er rússneskur stríðsglæpamaður og fyrrum liðsmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, sjái um að fá menn til liðs við.
Girkin hefur gagnrýnt rússnesku herstjórnina harðlega og er þekktur og vinsæll meðal rússneskra öfgaþjóðernissinna. Hann kom að hernámi Krím 2014 og innlimun skagans í Rússland auk hernáms úkraínskra landsvæða í Donbas sama ár.
ISW segir að „Kokkurinn“ sé í einstakri stöðu innan rússneska ríkisins og geti byggt veldi sitt betur upp en niðurlægðir rússneskir herforingjar. Pútín sé háður hersveitum hans í Bakhmut og sé líklega að reyna að hafa „Kokkinn“ góðan þrátt fyrir að hann grafi undan hefðbundnum herafla Rússa.