Sky News skýrir frá þessu og segir að samhliða vaxandi spennu vegna stríðsins í Úkraínu óttist Pólverjar að atburðirnir frá 2021 endurtaki sig en þá reyndu mörg þúsund manns frá Afríku og Miðausturlöndum að komast til Póllands frá Hvíta-Rússlandi. Nokkrir létust þegar þeir reyndu að komast yfir landamærin sem Pólverjar vörðu af hörku. Fáum dylst að stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi stóðu á bak við straum fólksins að landamærunum.
Sky News segir að Krzysztof Sobolewski, pólskur embættismaður og aðalritari stjórnarflokksins Lög og regla, segi að nú sé verið að íhuga að reisa múr á landamærunum að Kalíningrad eins og gert var á landamærunum að Hvíta-Rússlandi.
Kaliningrad hefur opnað á komur flugvéla frá Miðausturlöndum og Asíu, að sögn til að reyna að lokka fleiri ferðamenn til héraðsins. Það er rússneskt en aðskilið frá meginlandi Rússlands.
Dmitry Peskov, talsmaður ráðamanna í Kreml, sagði hugmyndina um að reisa múr á landamærum Póllands og Kaliningrad vera „heimskulega“. „Sagan sannar að það eru alltaf heimskulegar ákvarðanir að reisa múr, því eftir ár eða áratugi hrynja allir múrar,“ sagði hann.
Pólverjar reistu 5,5 metra háa stálgirðingu á landamærunum að Hvíta-Rússlandi eftir atburðina þar 2021. Hún er búin hreyfiskynjurum og myndavélum og er um 187 km að lengd.