Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að samkvæmt mælaborði Deloitte hafi verð í öllum eignaflokkum lækkað á síðustu vikum og er þetta byggt á tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Sala á einbýlum jókst um allt land á sama tíma sem og sala á íbúðum í fjölbýli á suðvesturhorninu.
Blaðið hefur eftir Ými Erni Finnbogasyni, sérfræðingi viðskiptagreiningar hjá Deloitte, að vaxtahækkanir Seðlabankans séu greinilega farnar að bíta. Hann benti á að enn sé mikið að gerast á fasteignamarkaðinum, salan sé lífleg og sé ekki að detta niður þrátt fyrir vaxtahækkanir.
Á fimmta hundrað íbúðir í fjölbýli seldust á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði og var meðalverð á fermetra 707.000 krónur. Hæst var það í júní, 737.000 krónur. Lækkunin er því 4%.