Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Einari Bessa Gestssyni, náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, að engi merki, önnur en skjálftavirkni, hafi sést en vel sé fylgst með þegar jarðskjálftahrinur af þessu tagi standi yfir. Ef hún verði viðvarandi verði farið í nánari greiningu á því sem er að gerast og gervihnattagögn og gögn um aflögun yfirborðs skoðuð.
Hann sagði að flestar jarðskjálftahrinur á þessu svæði á síðustu árum hafi tengst spennulosun í misgengjum en ekki kvikuhreyfingum. Hann benti á að við Öskju hafi land risið og skjálftavirkni átt sér stað að undanförnu, þetta sé rakið til kvikuinnskots. Af þeim sökum sé góð ástæða að fylgjast með öllu sem gerist nærri Öskju.
Hann sagði að ekki sé hægt að útiloka að einhver tengsl séu á milli Öskju og Herðubreiðar.