Borgnesingur um fertugt hefur verið sakfelldur fyrir dómi að honum fjarstöddum, vegna líkamsárásar á konu á bílastæði, þann 30. desember árið 2021.
Dómur yfir manninum var kveðinn upp í Héraðsdómi Vesturlands þann 18. október síðastliðinn. Í ákæru er manninum gefin að sök „líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 30. desember 2021, á bifreiðarstæði skammt frá … í …, veist að A…, kt. …, og slegið hana í andlitið, með þeim afleiðingum að A… hlaut væga yfirborðsáverka vinstra megin í andliti, eymsli alla vinstri kinn, eymsli vinstra megin á kjálka og á gagnaugasvæði að nefrótum vinstra megin,“ eins og segir í texta ákæru.
Í dómnum kemur fram að manninum var birt fyrirkall og ákæra en hann lét ekki sjá sig fyrir dómi og var hann dæmdur að honum fjarstöddum. Ennfremur kemur fram að maðurinn er með hreint sakavottorð, eða var með það fram að þessum dómi.
Niðurstaða dómsins er 30 daga skilorðsbundið fangelsi yfir manninum.