Rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir er gestur Ásdísar Olsen í þættinum Undir yfirborðið sem sýndur er á Hringbraut í kvöld. Í þættinum fer Elísabet yfir víðan völl og ræðir meðal annars um sína fyrstu kynlífsreynslu og viðbrögðin sem hún fékk frá móður sinni í kjölfar þess sem hún komst að kynlífinu.
„Þetta var náttúrulega bara íslensk afmeyjun,“ segir Elísabet er hún lýsir þessari reynslu sinni. „Hann var fullur og ég gáði hvort það væri blóð í lakinu, hann sofnaði strax á eftir og hefur eflaust ekki munað hver ég var.“
Þegar móðir Elísabetar komst að því að dóttir sín hafði sofið hjá í fyrsta skiptið brást hún virkilega illa við en Elísabet segir hana hafa barið sig. „Hún sló mig utan undir, reif í hárið á mér og kallaði mig druslu og lufsu,“ segir hún.
Í viðtalinu ræðir Elísabet síðan einmitt um ofbeldisfullt samband sitt við móður sína en það er umfjöllunarefni nýútkominnar bókar hennar sem ber titilinn Saknaðarilmur. Hún talar opinskátt um ofbeldið, óttann, geðveikina, þráhyggjuna, kvíðann, sjálfsvinnuna, edrúmennskuna og þrá hennar um að vera séð og heyrð, að fá ást og viðurkenningu.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum:
Undir yfirborðið er á dagskrá Hringbrautar kl. 19:30 og svo aftur kl. 21:30 í kvöld.