Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir að „þrátt fyrir áratugalanga baráttu, verulegar samfélagslegar og tæknilegar breytingar búum við enn í samfélagi þar sem framlag kvenna til samfélagsins er að mörgu leyti ósýnilegt, óviðurkennt og vanmetið.“
Þetta kemur fram í grein eftir hana á Vísir sem ber heitið „Konur á afsláttarkjörum?“
Greinin er rituð í tilefni þess að í dag er kvennafrídagurinn og á þessum degi fyrir 47 árum lögðu konur á Íslandi niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna.
Hún bendir á að þrátt fyrir fjölmargir hafi spurt sig í gegn um tíðina hvernig standi á því að við höfum enn ekki náð að tryggja jafnrétti kynjanna.
„Þegar fræðifólk (þó einkum konur) draga upp á yfirborðið meðvitaða eða ómeðvitaða hlutdrægni í garð kvenna eða fræðileg nálgun þeirra fjallar sérstaklega um stöðu kvenna flokkast það gjarnan sem femínísk nálgun. Dæmi um það er feminísk heimspeki, femínísk hagfræði, femínísk fjármál og svo mætti lengi telja,“ segir Sonja.
Konur eru „hitt kynið“
Hún telur það umhugsunarefni að enn í dag þurfi sérstakan merkimiða á fræði sem hafa það að markmiðið „að ná utan um (hinn) helming mannkyns. Svona svipað og almennt er það tekið fram sérstaklega þegar fjallað er um kvenna-landslið í einhverri íþróttagrein en algengara er að talað sé um landslið án frekari skilgreiningar þegar átt er við karlalið. Eða kvenkokka, kvenleikara, kvenpresta eða kvenrithöfunda. Hins vegar heyrum við ekki um karlkokk, karlleikara, karlprest eða karlrithöfund,“ segir hún.
Sonja bendir á að þetta minni óneitanlega á kenninguna um „hitt kynið“ þar sem karlar séu viðmiðið en konur séu frávik sem standi körlum að baki, eins og Simone De Beauvoir skrifaði um, Le Deuxième Sexe. Þetta sé einnig í tak við umfjöllunarnefni rithöfundarins Caroline Criado Peres í bókinni „Ósýnilegar konur“.
Konur halda uppi velferðinni á afsláttarkjörum
„Í dag vitum við að ein meginskýringin á launamun kynjanna er vegna þess hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er. Í því felst meðal annars að konur og karlar gegna ólíkum störfum á vinnumarkaði og kynjaskipting milli starfsgreina er áberandi. Konur eru í miklum meirihluta starfsfólks á opinberum vinnumarkaði líkt og í heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntakerfinu. Laun karla eru þó alltaf hærri en kvenna óháð því hvort þeir starfa á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Þetta hefur verið vitað í lengri tíma án þess að gripið hafi verið til markvissra aðgerða. Það er líkt og samfélagið telji sjálfsagt að konur haldi uppi velferðinni á afsláttarkjörum,“ segir Sonja og telur að þessi staða kalli á nýjan samfélagssáttmála.
Kvenna-kjarasamningar
Það sé því fagnaðarefni aðstjórnvöld hafi lýst því í yfir, í tengslum við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB og ríkis og sveitarfélaga í mars 2020, að skipaður yrði starfshópur sem hefur nú skilað tillögum sínum að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði.
„Við getum tekið stökk í átt að auknu jafnrétti með því að sameinast um að árið 2023 verði kvennaár. Það verði árið þar sem öll taka höndum saman og velta við öllum steinum til að afhjúpa og stöðva misrétti og kynbundið ofbeldi á vinnustöðum, í opinberum fjármálum, í fræðunum og kennslu, í gegnum gögn og gagnasöfnun og samfélaginu öllu og með markvissum aðgerðum. Það verði árið sem við gerum kvenna-kjarasamninga til að afsláttarkjör heyri sögunni til og við leiðréttum vanmat á störfum kvenna,“ segir Sonja.