Fyrir helgi var körfuboltaþjálfari rekinn frá íþróttafélagi á höfuðborgarsvæðinu. Ástæða brottrekstursins er sú að þjálfarinn hafði verið að senda stúlkum á aldrinum 15-16 ára óviðeigandi skilaboð. Frá þessu greinir RÚV.
Stúlkurnar sem um ræðir eru í öðru félagi en þjálfarinn en félag stúlknanna tilkynnti félagi þjálfarans um óviðeigandi skilaboðin. Þá var málinu vísað til barnaverndar og yfirvalda. Þá hafi það einnig verið tilkynnt til Körfuknattleikssambands Íslands en þjálfarinn hefur einnig sinnt þjálfun þar.
Í samtali við RÚV segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, að þjálfarinn verði ekki ráðinn aftur innan sambandsins. Þá segir hann að málið hafi komið inn á borð sambandsins fyrir helgi.