Á meðan á lokaathöfn flokksþings kínverska kommúnistaflokksins stóð var Hu Jintao, fyrrverandi forseti Kína, leiddur út af fundinum. Engin útskýring á þessu hefur verið gefin út af kínverskum stjórnvöldum. Hinn 79 ára gamli Jintao sat við hlið núverandi forsetans, Xi Jinping, áður en hann var fjarlægður af þinginu.
Myndband af atvikinu hefur vakið gríðarlega athygli og keppist fólk við að koma með sínar kenningar um ástæðuna fyrir þessu. Stephen McDonell, blaðamaður BBC sem sérhæfir sig í fréttum um Kína, segir að það séu tvær kenningar sem eru líklegastar til að vera sannar. Önnur kenningin er sú að í myndbandinu séum við að sjá það í beinni hvernig valdabaráttan í Kína virkar, leiðtoginn sem táknar gamla tímann er fluttur á brott.
Hin kenningin er að Jintao hafi verið alvarlega veikur en McDonell virðist þó hafa sínar efasemdir um þá kenningu. „Ef hann var leiddur í burtu út af slæmri heilsu af hverju gerðist það þá svona skyndilega? Af hverju var það gert fyrir framan myndavélarnar? Var þetta neyðartilvik?“
McDonell segir þá að tímasetningin á atvikinu sé líklega ekki slys þar sem fyrr um daginn hafði þingið verið fyrir luktum dyrum. „Það var ekki fyrr en eftir að myndavélarnar voru settar upp sem ríkisstarfsmennirnir gengu upp að Jintao og gáfu í skyn að hann þyrfti að yfirgefa svæðið,“ segir hann.
Myndbandið af atvikinu má sjá hér fyrir neðan: