Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að óháð teymi þjóðkirkjunnar hafi tekið málið til rannsóknar en hafi ekki náð að ljúka henni því þolandinn dró málið til baka frá teyminu vegna vantrausts. Það gerði hún í byrjun júní og sagðist ekki telja teymið óháð í störfum sínum.
Jón Helgi var leystur tímabundið frá störfum þann 9. desember á síðasta ári.
Pétur Georg Markan, biskupsritari, staðfesti við Fréttablaðið að Jón Helgi sé enn í leyfi og að ekki hafi verið gengið frá starfslokasamningi.
Aðspurður sagði Jón Helgi að málinu hafi verið lokið: „Það var alveg hreinsað að öllu leyti,“ sagði hann. Fréttablaðið segist þó hafa heimildir fyrir að teymið hafi ekki klárað málið.
Jón Helgi sagði að Biskupsstofa hafi boðið honum starfslokasamning í framhaldinu, „þar sem þetta voru nú miklar hremmingar.“ Hann glími einnig við veikindi og það spili inn í.