Það er bandaríska hugveitan The Institute for the Study of War sem heldur þessu fram. Hún segir að í gær hafi komið fram á Telegram að rússneskir hermenn hafi farið ránshendi um slökkvistöð í Kherson og flutt slökkviliðsbíla yfir Dnipro ásamt einkabílum og ýmsu öðru sem þeir hafa stolið í borginni.
Gervihnattamyndir eru sagðar sýna rússneska ferju sigla frá Kosatske, á vesturbakkanum, til Nova Kakhovka á austubakkanum. Sky News skýrir frá þessu.
Talið er að Rússar hafi staðið í þessum flutningum síðan snemma í mánuðinum. „Þessar fréttir benda til að rússneskar hersveitir séu meðvitað að flytja marga hermenn og hergögn frá vesturbakka Dnipro. Rússnesku hersveitirnar hafa líklega lært, að minnsta kosti að hluta til, af mistökum sínum þegar þær flúðu í örvæntingu frá Kharkiv Oblast undan gagnsókn Úkraínumanna,“ segir í greiningu hugveitunnar.