Meðfylgjandi myndir eru af fósturvef fyrir tíu vikna meðgöngu. Núna er þungunarrof bannað eða takmarkað í fjórtán fylkjum Bandaríkjanna. Þar af er það bannað í þrettán fylkjum þegar fósturvefurinn er jafn gamall og sést á myndunum.
Eftir níu vikna meðgöngu er fóstrið sjálft ekki greinanlegt með mannsauganu. 80% þungunarrofa sem framkvæmd eru í Bandaríkjunum eiga sér stað fyrir tíu vikna meðgöngu.
The Guardian birti á miðvikudag nokkrar myndir af fósturvef á ólíkum stigum fyrir tíu vikna meðgöngu og fóru myndirnar í mikla dreifingu á samfélagsmiðlum, urðu semsagt „viral.“
Myndirnar eru frá hópnum MYA Network en í honum eru meðal annars þeir sem framkvæma þungunarrof, aktívistar og fólk sem hefur farið í þungunarrof.
Joan Fleischman, ein af stofnendum MYA Network og læknir sem hefur framkvæmt þungunarrof í yfir 25 ár, sagði við Guardian að sjúklingar sem biðja um að sjá fósturvefinn eftir aðgerð verði oft mjög undrandi. „Þú finnur bókstaflega hvernig slaknar á spennunni. Fólk hefur verið í tilfinningalegum rússíbana og segir síðan: Er þetta í alvörunni allt og sumt?“
Eftir að hafa endurtekið fengið nákvæmlega þessi viðbrögð ákvað Fleischman að almenningur þyrfti að fá að sjá þessar myndir. Legfellibelgir (e. decidua) og blóð var fjarlægt áður en þær voru teknar til að vefurinn, sem seinna verður að legbelg, sjáist sem best.
I shared these images on TikTok and people are losing their minds insisting that it’s a lie – it’s wild how indoctrinated people are about abortion https://t.co/yUqPIZSxFA
— Jessica Valenti (@JessicaValenti) October 19, 2022
„Ég áttaði mig á því hversu mikið af myndum á Netinu og mótmælaspjöldum gefa til kynna að fósturvefur eftir svo stutta meðgöngu hafi einhvers konar mannlega eiginleika, og þær hugmyndir hafa gegnsýrt menninguna. Fólk trúir varla að vefurinn líti svona út.“
Andstæðingar þungunarrofs hafa áratugum saman mætt fyrir utan heilsugæslustöðvar þar sem veitt er þungunarrof og fyrir utan Hæstarétt með stórar myndir af blóðugum fóstrum á óljósum meðgöngutíma.
Þeir sem berjast gegn þungunarrofi stunda það einnig að afhenda þunguðum konum litlar plastdúkkur í líki fósturs til að reyna að telja þær af því að gangast undir þungunarrof.
Blaðamaðurinn Jessica Valenti er meðal þeirra sem deildi umfjöllun Guardian á Twitter og í framhaldinu fóru ýmsir að kalla hana lygara fyrir að dreifa myndunum. Því er jafnvel haldið fram að búið sé að fjarlægja hið eiginlega fóstur af myndunum sem er vitanlega fásinna.
I am used to trolls and misogynists, I’m completely jaded in that regard. But watching adult women – even those who say they’re pro-choice – refuse to believe that this is what early pregnancy and abortion looks like was so fucking demoralizing
— Jessica Valenti (@JessicaValenti) October 20, 2022
Fleischman sagði við Guardian að margar af þeim myndum sem hafa verið í dreifingu í gegn um árin og hafa átt að sýna fóstur á byrjunarstigi þroska séu það í raun ekki, heldur séu þetta myndir af fóstri á öðrum stigum, en þeim sé dreift af fólki sem er á móti þungunarrofi og trúir því að líf hefjist við getnað.