Í sex daga lá Jón Hjaltason, sagnfræðingur og bæjarfulltrúi á Akureyri, undir ásökunum um kynferðislega áreitni. Að þeim tíma liðnum var það gefið út að ásakanir um kynferðislega áreitni beindust ekki gegn honum heldur öðrum manni. Jón krefst afsökunarbeiðni vegna málsins og kannar nú réttarstöðu sína.
Mikil átök hafa verið í bæjarstjórnarflokki Flokks fólksins á Akureyri á árinu og þær deilur brutust upp á yfirborðið í september. Þær Málfríður Þórðardóttur, Tinna Guðmundsdóttir og Hannesína Scheving Virgild Chester sökuðu forystumenn bæjarstjórnarflokksins fyrir norðan um einelti, andlegt ofbeldi og kynferðislega áreitni. Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, steig fram skömmu áður með yfirlýsingu þar sem hann studdi konurnar þrjár eindregið og fordæmdi meint ofbeldi gegn þeim.
Ásakanirnar beindust gegn Jóni Hjaltasyni bæjarfulltrúa, Brynjólfi Ingvarssyni, oddvita flokksins, og Hjörleifi Hallgrímssyni, sem hefur titlað sig guðföður bæjarstjórnarflokks Flokks fólksins á Akureyri. Kom síðan í ljós að konurnar sökuðu aðeins Hjörleif um kynferðislega áreitni en ekki Jón Hjaltason og Brynjólf Ingvarsson.
Jón sættir sig hvorki við að hafa legið undir ásökunum um kynferðislega áreitni né þær ásakanir sem konurnar standa við gagnvart honum, um andlegt ofbeldi, og hann leitar nú leiða til að rétta sinn hlut. Bróðir Jóns, Þorsteinn Hjaltason, birti grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann sakaði Ingu Sæland, formann flokksins, og Guðmund Inga Kristinsson þingflokksformann, um siðblindu. Hann segir ásakanir kvennanna þriggja hafa verið óljósar en ásökunin um kynferðislega áreitni hafi tryggt mikla fjölmiðlaumfjöllun.
„Svo óljósum að erfitt var að henda reiður á málinu og bera hönd fyrir höfuð sér. Þá loks 19. september héldu konurnar fréttamannafund og sögðu að Brynjólfur og Jón hefðu ekki beitt þær kynferðislegri áreitni, þeir væru saklausir af því. Þetta sögðu þær án þess að sýna nokkurn vott af iðrun yfir því að hafa valdið því, að allir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar landsins fjölluðu um þessar ásakanir á hendur þeim Jóni og Brynjólfi,“ segir Þorsteinn meðal annars í grein sinni.
DV sló á þráðinn til Jóns Hjaltasonar sem upplýsti að hann og Brynjólfur hafi vísað málinu til bæjarstjórnar og vilja þeir fá úr því skorið hvort konurnar hafi brotið siðareglur bæjarins:
„Við erum mikið að velta þessu fyrir okkur og það er orðin niðurstaða að vísa þessu inn í bæjarkerfið hérna, til bæjarstjórnar. Það eru siðareglur í gildi fyrir trúnaðarmenn bæjarins og undir þær falla bæði bæjarfulltrúar og nefndarmenn. Við ætlum að leita þangað með þetta mál og sjá hvernig bæjarkerfið tekur á því. Flokkur fólksins heyktist á því að setja í þetta rannsóknarnefnd eins og flokkurinn hafði lofað að gera.“
DV spurði Jón hvort hann teldi sig hafa verið hreinsaðan af ásökunum um kynferðislega áreitni:
„Jú, en það fór ósköp lágt og vakti litla athygli. Hins vegar stendur eftir ásökunin um ofbeldisfulla hegðun sem á að hafa staðið yfir frá því snemma í vor. Síðan fylgir lýsing á þeirri hegðun sem er ekkert annað en lýsing á mjög grófu einelti sem ég get ekki sagt að sé neitt betra en kynferðisleg áreitni. Þetta er afskaplega einkennilegt og við komum báðir algjörlega af fjöllum, höfðum aldrei upplifað neitt í þeim dúr sem þær segjast hafa upplifað. Ég hafna þessum ásökunum algjörlega og vil endilega að þær verði látnar útskýra þær betur því það hefur ekkert komið annað fram en að ofbeldið felist í 250 tölvupóstum og því að ég sló í borðið á fundi um miðjan september.“
Jón telur að ásakanir kvennanna á hendur Hallgrími fyrir kynferðislega áreitni hvíli á veikum grunni. „Þær sögðu á blaðamannafundinum að okkur hafi verið kunnugt um þetta kynferðislega áreiti en ekki aðhafst neitt. Þær sögðu okkur hlæjandi frá þesssum bröndurum hans og gerðu grín að gamla manninum. Við hlógum með þeim og upplifðum aldrei að þær væru neitt beygðar út af honum. Þannig að þetta kom okkur algjörlega á óvart. Ég var spurður út af þessu hvort það hefði verið rétt af mér að hlæja. Átti ég að hlæja með þeim eða benda þeim á að þær væru beygðar og brotnar?“
Jón bendir líka á að konurnar hafi lítið haft að segja af Hjörleifi mánuðina fyrir blaðamannafundinn í september. „Hjörleifur móðgaðist mjög snemma við okkur í kosningabaráttunni og gekk á dyr. Eftir það kom hann ekki nálægt okkur nema hann kom á tvo mjög stóra fundi, Inga Sæland var á öðrum þeirra.“
Jón útilokar ekki málsókn vegna ummæla kvennanna. Segir hann að hann og Brynjólfur séu að kanna réttarstöðu sína. Fyrsta skrefið sé hins vegar að fara þess á leit við bæjarstjórn að skera úr um hvort siðareglur bæjarins hafi verið brotnar í málinu.