Nýjasta útspil bandaríska stórmeistarans Hans Niemann hefur vakið mikla athygli um allan heim en ungstirnið umdeilda hefur kært fjölda manns fyrir að vega að mannorði sínu. Í þeim hópi er heimsmeistarinn Magnus Carlsen sem og bandaríski stórmeistarinn Hikaru Nakamura, sem er einn sterkasti skákmaður heims og vinsælasti „skákstreymarinn“. Telur Niemann að tvímenningarnir hafi ásamt meðhjálpurum eyðilagt mannorð sitt og skákferil.
Í gær mátti sjá nafn Carlsen og Niemanns í hópi vinsælustu umræðuefna á Twitter og það er ekki á hverjum degi sem skáktengd mál rata þangað.
Alls krefjast lögfræðingar Niemanns um 14 milljarða króna frá Carlsen og Nakamura, hvorum um sig en ljóst er að slíkur dómur myndi rústa fjárhag beggja.
Þannig vill til að næstkomandi þriðjudag, 25. október, hefst heimsmeistaramót í Fischer Random-skák í Reykjavík en þar munu átta keppendur tefla til úrslita um titilinn eftirsótta. Teflt er 25-27.október og síðan til úrslita 29-30. október á Hótel Natura. Á meðal keppenda verða Carlsen og Nakamura en aðrir keppendur eru stórmeistararnir Wesley So – ríkjandi heimsmeistari, Ian Nepomniachtchi, Matthias Bluebaum, Vladimir Fedoseev, Nodirbek Abdusattorov og Hjörvar Steinn Grétarsson.
Mótið er haldið hérlendis í tilefni af 50 ára afmæli Einvígis aldarinnar milli Bobby Fischer og Boris Spassky. Það er vel við hæfi enda er Fischer Random-kerfið hugdetta Fischer. Um er að ræða afbrigði af skák þar sem þungu mönnunum (kóngurinn, drottningin, riddararnir, biskuparnir og hrókarnir) er raðað upp á óhefðbundinn hátt bak við peðin sem gerir það að verkum að stúderingar og þekking stórmeistaranna á byrjunum nýtist ekki með nokkru móti.
Augu heimsins munu því beinast að Íslandi í næstu viku og má búast við því að setið verði um tvímenninganna, Carlsen og Nakamura, vegna þessara nýjustu vendinga í svindlhneykslinu.