Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, segir afar mikilvægt að virða aldurstakmarkanir á samfélagsmiðlum sem í flestum tilfellum eru við 13 ára markið.
„Ljót eineltismál, myndbönd af ofbeldi og hatursfull ummæli í garð minnihlutahópa meðal barna og ungmenna hafa verið áberandi í umræðunni síðustu daga, vikur og mánuði. En hvaðan kemur þessi heift, þessi munnsöfnuður, þetta bakslag í umburðarlyndi í okkar samfélagi og hvað eiga þessi dæmi sameiginlegt?“ spyr Skúli í grein sem hann birtir á Vísir undir yfirskriftinni „Þrjár ástæður fyrir því að börn yngri en 13 ára ættu ekki að vera á samfélagsmiðlum“.
Skúli svarar þessu sjálfur og segir að þetta eigi sér yfirleitt stað á samfélagsmiðlum.
Deila ofbeldinu á milli sín
„Þar hafa börn og ungmenni vettvang til þess að senda ljót, hatursfull og niðrandi ummæli til hvers annars, ásamt því síðan að geta deilt ofbeldinu sín á milli með skjáskotum og myndböndum af árásum. Þá eiga þau mörg falska og nafnlausa aðgangsreikninga sem þau geta notað til þess að taka þátt, án þess að koma fram undir nafni. Hvaða erindi eiga börn inn á slíkan vettvang og hver gaf þeim leyfi til þess?“
Skúli fer síðan yfir þær þrjár ástæður sem hann setur fyrir því að börn yngri en 13 ára ættu að vera á samfélagsmiðlum, sem eru skaðlegt efni, áreiti frá ókunnugum og stafrænt fótspor.
Þegar kemur að skaðlegu efni bendir hann á að þrátt fyrir aldurstakmarkanir sé um 60% barna á Íslandi á aldrinum 9-12 ára á TikTok og Snapchat, 50% er með sinn eigin aðgang á YouTube og 30% á Instagram.
Á meðal íslenskra barna og ungmenna á efsta stigi grunnskóla og framhaldsskóla hafi 29% séð ógnvekjandi myndir þar sem verið var að meiða menn og dýr, og 23% séð hatursskilaboð sem beinast gegn einstaklingum eða hópum.
Beiðnir um nektarmyndir
Hvað varðar áreiti frá ókunnugum þá séu stelpur mun líklegri til að fá kynferðisleg komment og beiðnir um nektarmyndir en strákar. Tæplega 7 af hverjum 10 stelpum á grunn- og framhaldsskólaaldri hafa fengið beiðni um nektarmynd frá ókunnugum.
Þá eigi 40% íslenskra barna- og ungmenna á aldrinum 13-18 ára falska eða nafnlausa aðgangsreikninga á samfélagsmiðlum. „Þessa reikninga geta þau notað til þess að taka þátt í eineltinu, ofbeldinu og hatrinu, án þess að koma fram undir nafni. Þau skýla sér þannig á bak við nafnleysið og líður þá eins og þau beri ekki lengur fulla ábyrgð á gjörðum sínum,“ segir Skúli.
Netið gleymir aldrei
Stafrænt fótspor er síðan einfaldlega allt það efni sem við og aðrir búum til og deilum um okkur á netinu.
„Með því að leyfa börnum að nota miðla sem þau hafa ekki aldur og þroska til þá erum við að gefa þeim leyfi til að stíga þar sínu fyrstu stafrænu fótspor. Netið gleymir engu og þess vegna er það svo að þegar að þessi spor hafa verið tekin þá verður oft ekki aftur snúið. Hérna þurfum við sem eldri erum að passa upp á börnin okkar. Þau eru á mikilvægu þroskaskeiði í lífinu sem felur í sér bæði framfaraskref og feilspor,“ segir Skúli.
Greinina í heild sinni má lesa hér.
Ef þú eða einhver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfsvígshugsanir að þá er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 og í gegnum netspjall þeirra. Þar eru þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sem svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Eins er hægt að leita til Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.