Fæstir áttu eflaust von á svo góðum árangri úkraínskra hersveita og þá kannski allra síst Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, sem virtist telja að hægt yrði að sigra Úkraínu á nokkrum dögum, að Rússum yrði tekið sem frelsurum. Þess í stað hafa þeir mætt harðri mótspyrnu og hafa beðið marga ósigra og misst mikinn fjölda hermanna og mikið magn hernaðartóla.
En hvað veldur því að úkraínska hernum hefur gengið svona vel?
Mick Ryan, fyrrum herforingi og hernaðarsérfræðingur, birtir daglega greinar á Twitter um stöðuna í Úkraínu. Hann ræddi við B.T. um stríðið og sagði að þrennt hafi gert að verkum að Úkraínumönnum hafi gengið svona vel á vígvellinum.
Það fyrsta sem hafi breytt stöðunni, Úkraínu í vil, séu vopn frá Vesturlöndum. Þau hafi verið afgerandi, þá aðallega HIMARS flugskeytakerfin sem geta skotið flugskeytum allt að 40 km með mikilli nákvæmni. Með þeim hafa Úkraínumenn getað ráðist á birgðalínur og birgðaflutningalestir Rússa langt að baki fremstu víglínu. Með HIMARS hafi þeir staðið jafnfætis Rússum og framar þeim þegar kemur að stórskotaliði. En það sem er enn mikilvægara að mati Ryan er að HIMARS hefur gert Úkraínu kleift að rjúfa það kyrrstöðustríð sem var í gangi og stýra gangi stríðsins, þeir stýri því nú á sínum forsendum.
Annað atriði er að sögn Ryan góður árangur Úkraínu í loftinu. Loftvarnir þeirra hafi verið afgerandi. Rússum hafi aldrei tekist að ná yfirráðum í lofti í Úkraínu og Úkraínumenn hafi alltaf geta skotið flugskeyti og flugvélar niður.
Þriðja atriðið skiptir einnig miklu máli en það er „úkraínski hermaðurinn“ sagði Ryan. „Úkraínskir hermenn eru bara betri en þeir rússnesku. Úkraínskir hermenn eru betur þjálfaðir og hafa betri búnað. Úkraínsku hermennirnir hafa líka eitthvað að berjast fyrir, tilvist þjóðarinnar“ sagði hann.