Mikla athygli vakti í gær þegar 12 ára þolandi hrottalegs eineltis opnaði sig í sjónvarpsviðtölum á RUV og Stöð 2 í gær. Stúlkan, Ísabella Von, var í viðtölunum með móður sinni, Sædísi Hrönn Samúelsdóttur.
Ýmsir hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum í dag um að þeim hafi ekki þótt við hæfi að tólf ára barn væri í sjónvarpsviðtölum daginn eftir að reyna sjálfsvíg. Þá hefur einnig verið gagnrýnt að í frétt RUV var stúlkan látin lesa upp ljót skilaboð sem hún fékk send frá gerendum sínum auk þess sem hún var spurð hvort hún gæti fyrirgefið.
Ísabella Von er í áttunda bekk Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Sædís steig fram á samfélagsmiðlum um helgina og greindi frá því að dóttir hennar sé beitt hrottalegu einelti af hópi um 30 krakka. Þessi hópur hafi meðal annars hótað að beita dóttur hennar ofbeldi, hvatt hana til að taka eigið líf, uppnefnt hana og svo ráðist á hana.
Sædís Hrönn var síðan til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun þar sem hún greindi frá því að dóttir hennar væri á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að taka eigið líf.
Málið hefur heltekið þjóðina enda ekki oft sem jafn ofbeldisfullt einelti gegn barni er í opinberri umræðu.
Sjá einnig: Hafnarfjarðarbær um eineltismálið – Segja um alvarlega árás að ræða
Í gærkvöldi voru þær mæðgur síðan saman í sjónvarpsfréttum RUV og Stöðvar 2 að ræða þetta hryllilega mál. Og það sló fólk á ólíkan hátt. Sumir hrósuðu stúlkunni fyrir að skila skömminni opinberlega en öðrum fannst þarna verið að setja barn í viðkvæmri stöðu í jafnvel enn viðkvæmari stöðu.
Illugi Jökulsson fordæmir viðtalið á RUV í Facebookfærslu: „Að fréttamaður spyrji 12 ára stúlku, sem hefur sætt grimmilegu ofbeldi í heilt ár, hvort hún geti „fyrirgefið“ ofbeldisfólkinu, það er óhæfa. Tala nú ekki um strax daginn eftir að ofbeldið og eineltið enduðu með skelfingu. Hin sífellda spurning og oft krafa um að þolendur ofbeldis „fyrirgefi“, hún er í sjálfu sér óhæfa.“
Theódóra Björk Guðjónsdóttir gagnrýnir viðtalið sömuleiðis á Twitter: „Ég geri alvarlega athugasemd við það að birta myndir af og viðtöl við barn í sjálfsvígshættu vegna eineltis. Að birta skjáskot af andstyggilegum skilaboðum sem beint er að barninu í beinni á Facebook er einnig vafasamt svo vægt sé til orða tekið.“
Ég geri alvarlega athugasemd við það að birta myndir af og viðtöl við barn í sjálfsvígshættu vegna eineltis. Að birta skjáskot af andstyggilegum skilaboðum sem beint er að barninu í beinni á Facebook er einnig vafasamt svo vægt sé til orða tekið.
— Theódóra (@Skoffin) October 19, 2022
Það gerir Guðmundur Jörundsson einnig. Hann segir „gjörsamlega sturlað að 12 ára barn sé sett í þá stöðu að tekið sé við það sjónvarpsviðtal um eigin sjálfsvígstilraun.“ Þá spyr hann hvernig það gerist eiginlega að enginn hafi stöðvað þessa atburðarás.
Það er gjörsamlega sturlað að 12 ára barn sé sett í þá stöðu að tekið sé við það sjónvarpsviðtal um eigin sjálfsvígstilraun.
Hvernig getur það gerst að enginn stöðvi þetta? Sagði enginn bara heyrðu er þetta ekki of langt gengið?
— Guðmundur Jörundsson (@gudmundur_jor) October 20, 2022
Anna Þórhildur Kristmundsdóttir deilir skjáskoti úr frétt RUV í opna Facebookhópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu og spyr hvort Ísabellu beri nokkur skylda til að fyrirgefa gerendum sínum.
Sædís svarar þessu og segir að Ísabella von hafi sjálf valið að koma fram undir nafni og fara í viðtal.
„Það hefur ekkert verið gert án hennar samþykkis. Hún var kominn með nóg og vildi að allir vissu hvað væri í gangi. Mér finnst hún ótrúlega hugrökk að stíga fram á þessum tímapunkti og er svo stolt af henni. Þetta er hennar líf og hún stjórnar,“ segir Sædís.
Hún tekur síðan fram að það megi deila um hvort þetta hefi verið of snemmt og hvort spurningar fjölmiðla hafi verið við hæfi.
„Margir hafa haft samband og beðist afsökunar og hún hefur fyrirgefið sumum en það er algjörlega hennar val. Hún þarf ekki að fyrirgefa neinum ef hún vill það ekki. Hún er viss um að flestir þessir krakkar hafi ekki fattað almennilega hvað þau væru að gera, hvað þetta væri alvarlegt og að þau séu ekki vond. Þau séu líka börn og hafi ekki nógan þroska til að átta sig endilega á aðstæðum,“ segir Sædís.
_____________________________________________
Ef þú eða einhver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfsvígshugsanir að þá er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 og í gegnum netspjall þeirra. Þar eru þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sem svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Eins er hægt að leita til Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.