Svona hefst færsla sem Elín Vigdís Guðmundsdóttir skrifar og birtir í Facebook-hóp íbúa í miðborg Reykjavíkur. Ástæðan fyrir skrifum Elínar er sú að börnin hennar eru reglulega með sölubás fyrir utan húsið þeirra á Óðinsgötu. Í lok sumars var 9 ára gömul dóttir hennar að selja leikföng og fleira á slíkum sölubás en hún hafði þá óvart tekið með sér um 15 dúkkur á básinn.
„Þetta voru svona LOL-dúkkur sem hún er búin að safna frekar lengi, þetta var í raun og veru svona safnið af hennar uppáhalds dóti,“ segir Elín í samtali við DV um málið en dóttir hennar seldi mæðgum dúkkurnar fyrir 4.000 krónur. „Þetta er ekki eitthvað sem hún er að fara að sanka að sér aftur en henni þykir vænt um safnið og hefur fengið þær smám saman í gegnum árin. Hún svona eiginlega seldi þær óvart.“
Elín segir að dóttir hennar hafi verið miður sín yfir þessu þar sem hún vildi í raun ekki selja dúkkurnar. Dóttir hennar hafi bara fundið fyrir pressu þar sem hún var með þær hjá hinum hlutunum sem voru til sölu. „Hún var óvart með dúkkurnar og það kom móðir með dóttur sína sem langaði rosalega mikið að kaupa þær en hún var ekki að selja þær. Hún var mjög leið eftir að hún seldi þær þannig ég vildi reyna að hjálpa henni að finna þær aftur,“ segir hún.
„En ég vil heldur ekki gera neitt drama úr þessu,“ segir Elín svo en hún segist skilja það mjög vel ef mæðgurnar vilja ekki selja dóttur sinni dúkkurnar til baka „Það er líka svolítið síðan þannig ég skil það alveg ef hún vill ekki láta þetta af hendi en ég vil bara spjalla við hana, konuna sem keypti þær.“
Í færslunni sem Elín birti á Facebook segist hún vita að þetta geti hljómað kjánalega en að hún vilji einmitt bara reyna að finna móðurina sem keypti dúkkurnar og spjalla við hana um þennan misskilning. „Ég lofaði dóttur minni að reyna að finna þær,“ segir hún í færslunni.
Það hefur orðið fallegur endir á þessu máli. Móðirin sem Elín leitaði að er fundin en hún hafði samband við Elínu núna í kvöld „Mamman sá færsluna og var mjög skilningsrík,“ segir Elín í samtali við blaðamann. „Hún áttaði sig ekki á að stelpan mín hefði tekið þetta svona nærri sér, skiljanlega, og ætlar að finna dúkkurnar í leikfangakössunum.“