Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, bendir á sláandi hlut í sambandi við umræðuna um einelti sem hefur átt sér stað undanfarna daga eftir að móðir ungrar stúlku steig fram og greindi frá því að dóttir hennar hefði reynt að taka eigið líf í kjölfar þess að vera beitt hrottalegu einelti og líkamlegu ofbeldi frá jafnöldrum sínum.
Biggi bendir á að börnin hafi það sem fyrir þeim er haft og nefnir dæmi um ummæli sem fullorðið fólk hefur látið falla á samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum í tengslum við eineltismálið.
Biggi vekur athygli á þessu í pistli sem hann birti á Facebook.
„Það er fullkomlega eðlilegt og í raun ágætt að fólki bregði við fréttir eins og þá sem við sáum í dag af eineltismálinu. Þetta mál er sorglegra en tárum tekur og óþolandi að börn skuli upplifa slíkt. Þetta mál er samt langt frá því að vera eitthvað einsdæmi. Svona mál koma reglulega upp og mörg þeirra sjáum við aldrei vegna þess að þau eru föst inni í snjallheimi barnanna okkar.“
Biggi segir að börn í dag séu fyrsta kynslóðin til að alast upp með samfélagsmiðlum og það sé fullorðið fólk sem „lögðu stikurnar með fram veginum sem þau eru að reyna að feta. Hvernig hefur okkur gengið? Hvað hafa þau lært af okkur?“
Biggi segir aldrei réttlætanlegt að beita aðra ofbeldi, hvorki í verki né orðum. Þegar börn verði fyrir slíku sé hætta á að sárin verði dýpri og afleiðingarnar alvarlegri. Það sé því skylda samfélagsins að vernda börnin okkar eins vel og hægt er.
„Að lokum langar mig að koma með nokkrar setningar sem fullorðnir einstaklingar létu frá sér á samfélagsmiðlum og á kommentakerfum í dag. Þetta er bara brot af því sem var sagt. Áttum okkur á því að þarna eru fullorðnir einstaklingar að tala um börn. Vissulega gerendur í máli sem þarf að taka á, en börn engu að síður. Börn sem þurfa aðstoð og leiðbeiningu inn á rétta leið í restina af lífinu. Ok, vísum þeim veginn…“
Svo telur Biggi upp ummæli sem hann hefur rekið augun í frá fullorðnu fólki.
„
„Hef aldrei skilið hvernig hægt er að skapa svona viðbjóðsleg kvikindi. Þetta er versta sort af öllu ógeðslegu.“
„birta myndir af gerendum á almennum áberandi stöðum miskunnarlaust, mætti hafa myndir af forræðismönnum með“
„dæma þá eins og um FULLORÐNA EINSTAKLINGA sé að ræða !“
„Berja þessa vesalinga fyrir framan alla í skólanum.“
„Það á að draga öll þessi börn í sjónvarpið og vita hvað þau hafa að segja og hvort ekki lækkaði í þeim kjafturinn.“
„Taka þessa krakka ANDSKOTA og löðrunga þá, djöfulsins viðbjóður er þessi krakka líður„
„Það vantar hérna unglingadómstól og unglinga*fangelsi*“
„Helvítis aumkunarverðu og illa innrættu börn.“
„Þetta eru heilalausir aumingjar eins og foreldrarnir.“
„Það þarf ekki að raskella þessi börn, það þarf að lemja manndóm í foreldrana líka, sóunn á súrefni þetta pakk.“
„Krakkar þurfa ađ finna þađ með mjög skýrum hætti ađ ofbeldi hefur afleiðingar og afleiðingarnar þurfa ađ bíta hressilega helst mjög mikið.“
„Skítt með persónuvernd, nöfn þessara krakka og foreldra þeirra upp á borðið strax.“
„Name and shame þessa krakka og foreldra þeirra. Eina ráðið“
„Ógeðslegur skóli eru foreldrar eitthvað skrýtnir að leyfa þessu að viðgangast.“
„Setja upp opna Facebooksíðu með myndum af þessum ógeðis krakkafíflum.“
„Það þarf auðvitað fyrst og fremst að taka þessa gerendur ÚR UMFERÐ og það undireins. Það er ekki hægt að hafa svona villidýr í samfélaginu“
„Helvítis viðurstyggilega drulluhyski“
„Fara heim til þeirra og murka lífið úr pabba þeirra fyrir framan börnin“
„Guð minn góður hvað er að loka þessum skóla og taka börnin af foreldrunum“
„Meira ruglið…ég væri búin að senda hrotta á eitt og hvert þeirra og foreldra“
Ég spyr aftur. Hvernig gengur okkur?
„