Austurrískur ríkisborgari var í dag (20. október) dæmdur í 15 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness, fyrir innflutning á rétt tæpu kílói af kókaíni.
Efnin flutti maðurinn með flugi til Íslands frá Amsterdam. Faldi hann efnin í farangri sínum. Þetta gerðist þann 20. ágúst síðastliðinn.
Það er mat dómsins að maðurinn hafi ekki sjálfur átt fíkniefnin og hann virðist ekki vera með neinn sakaferil. Þetta leiðir hugann að tilkynningu lögreglu í dag um stöðumat á skipulagðri brotastarfsemi. Þar kemur fram að íslenskir aðilar, búsettir erlendis, stýra ákveðnum brotahópum á Íslandi:
„Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi er umfangsmikil og alþjóðleg í eðli sínu. Starfsemin er skipulögð á þann veg að erfitt er greina brotin nema heildarmynd starfseminnar liggi fyrir. Ljóst er að að íslenskir aðilar búsettir erlendis stýra ákveðnum brotahópum hér á landi. Málin eru fjölbreytt í eðli sínu en mörg hver snúa að hagnýtingu skipulagðra brotahópa á fólki í viðkvæmri stöðu, til að mynda til fíknefnasmygls og mansals. Mikil aukning mála hefur verið hjá lögreglu á landamærum Íslands sem tengja má skipulagðri brotastarfsemi.“
Sem fyrr segir var austurríski maðurinn dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Hann þarf auk þess að greiða rúmar 1,3 milljónir króna í málskostnað.