Myndbönd hafa gengið um samfélagsmiðla undanfarnar vikur sem sýna unga stúlku beitta hrottalegu ofbeldi af hópi stelpna á svipuðu reki. Móðir stúlkunnar, Sædís Hrönn steig fram á samfélagsmiðlum um helgina og greindi frá því að dóttir hennar sé beitt hrottalegu einelti af hópi um 30 krakka. Þessi hópur hafi meðal annars hótað að beita dóttur hennar ofbeldi, hvatt hana til að taka eigið líf, uppnefnt hana og svo ráðist á hana.
Með færslunni deildi Sædís hrottalegum myndböndum þar sem dóttir hennar er beitt líkamlegu ofbeldi og skjáskotum af samskiptaforritum þar sem sést hvernig dóttirin er beitt skuggalegu einelti.
Meðal annars hefur verið stofnuð haturshópur á samfélagsmiðlum þar sem dóttur hennar er óskað dauða og þess óskað að henni væri nauðgað. Eins hafi nektarmyndum og myndbandi af henni verið dreif án leyfis og birt á netinu.
Stúlkan hefur ekki farið í skólann undanfarnar vikur því fjórir gerenda hennar eru með henni í bekk og sex til viðbótar í öðrum bekkjum.
Ástandið verið slæmt í rúmt ár
Sædís Hrönn var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún greindi frá því að dóttir hennar væri nú á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að taka eigið líf.
Eitt myndband sem hefur gengið um netið sýnir hvar dóttir Sædísar er beitt hrottalegu ofbeldi í Smáralindinni. Má þar sjá hvar hún er laminn og sparkað í höfuð hennar svo dæmi séu tekin. Stúlkurnar sem eru gerendur í þeim aðstæðum virðst svo af skjáskotunum sem Sædís hefur deilt hafa montað sig af ofbeldinu og vonast meðal annars eftir því að hafa nefbrotið hana. .
Sædís Hrönn segir að ástandið hafi verið mjög slæmt í rúmt ár. Svo hafi krakkarnir byrjað að beita hana líkamlegu ofbeldi núna í haust.
„Hún er ennþá uppi á spítala. Hún reyndi að taka sitt eigið líf.“
Hvorki Sædís né dóttir hennar átti sig á því hvers vegna ofbeldið hafi byrjað. Sædís segir að leitað hafi verið til lögreglu sem lítið þetta alvarlegu augum og ætli að reyna að gera hvað hún geti gert en gerendurnir séu þó undir lögaldri.
Hvött til að reyna annað sjálfsvíg
Skólinn hafi lítið gert til að aðstoða. Sædís hefur eins birt skjáskot af snapchat-hóp þar sem dóttir hennar er meðal annars hvött til að taka eigið líf. Dóttir hennar svarar því til að hún hafi þegar reynt það og fær þá svarið „Gerðu það aftur“
„Þetta er bara nánast eins og morðtilraun. Líka bara það sem þær eru að segja,“ segir Sædís.
Sædís segist sjálf vera ráðalaus og dofin. Barnaverndarnefnd sé í málinu að gera það sem þau geti gert en dóttir Sædísar er nú enn á sjúkrahúsi og kemur ekki til með að mæta aftur í skólann enda treysti hún sér ekki til að mæta þar gerendum sínum.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins, mætti í Bítið á eftir Sædísi og var miður sín eftir að hafa hlustað á móðurina greina frá því ofbeldi sem dóttir hennar hefur orðið fyrir. Það sé heppni að árásirnar á dótturinnar hafi ekki farið verr enda hafi meðal annars verið sparkað í höfuð hennar. Sem sálfræðingur hafi hún hitt fullorðið fólk sem hafi verið gerendur í áþekkum málum og sjái verulega eftir því. Einelti og ofbeldi sé aldrei réttlætanlegt.
_____________________
Ef þú eða einhver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfsvígshugsanir að þá er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins, 1717 og í gegnum netspjall þeirra. Þar eru þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sem svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Eins er hægt að leita til Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.