Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að foreldrum sé ekki skýrt frá því að betri kostir séu í boði þegar kemur að því að bólusetja dætur þeirra með Cervarix gegn HPV-veirunni. Cervarix veitir vörn gegn tveimur tegundum af veirunni eða um 70% vörn.
Bóluefnið Gardasil 9 veitir hins vegar mun breiðari vörn en það ver gegn níu tegundum og veitir því um 90% vörn.
Ef forsjáraðilar vilja að dætur þeirra fái betri vörn þurfa þeir að óska sérstaklega eftir því og greiða kostnaðinn.
Einn skammtur af Ceravix kostar 14.792 krónur en tvo skammta þarf við bólusetningu.
Einn skammtur af Gardasil 9 kostar 27.233 krónur og það þarf einnig tvo skammta af þessu bóluefni.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga hjá Landlæknisembættinu, sagði í samtali við Fréttablaðið að ekkert „ráðrúm“ hafi verið til að bjóða upp á Gardasil 9. Einnig þurfi að bjóða bóluefnakaup út en síðasta útboð var 2016. „Þá var Cervarix valið og Gardasil 9 var ekki boðið í því útboði,“ sagði hún.
Hún sagi að útboð verði á næstu mánuðum og þá komi í ljós hvaða bóluefni verður í boði frá haustinu 2023.