fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Milljónatjón í þaulskipulögðu innbroti í Gnoðarvogi – „Við vorum í áfalli“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 19. október 2022 12:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við vorum í áfalli í gærkvöld og fram á nótt,“ segir kona í Gnoðarvogi í Reykjavík eftir þaulskipulagt innbrot inn í bílskúr hennar og eiginmanns hennar þar sem verðmætum sem skipta milljónum var stolið.

Í bílskúrnum voru mikil verðmæti, meðal annars mikið magn af allskonar hágæða veiðivörum í eigu eiginmanns konunnar. Til dæmis ný rjúpnavesti, tugþúsundir veiðiflugna, veiðifatnaður af dýrustu gerð, veiðistangir, rándýrar veiðitöskur, veiðihjól, auk þess sem riffil- og haglabyssuskot voru tekin.

„Við fengum sjokk þegar við sáum riffiltöskuna opna á gólfinu en þegar við aðgættum veiðiskápinn sáum við að þeir höfðu ekki komist inn í hann,“ segir konan en í veiðiskápnum eru rifflar og haglabyssur.

Konan segir að innbrotið hafi líklega verið framið í fyrrinótt en hjónin komust ekki að því fyrr en í gærkvöld en þau vinna langan vinnudag. Hún lýsir því í samtali við DV hvernig þau uppgötvuðu innbrotið:

„Það var ekki fyrr en á ellefta tímanum í gærkvöld. Þá kallar gömul nágrannakona á mig og segir að það sé búið að vera opið í allan dag og allt kveikt. Þeir hafa líklega farið þarna inn einhvern tíma í fyrrinótt.“

Konan segir að innbrotið virðist þaulskipulagt og þjófarnir hafi haft vitneskju um hvað væri að finna í skúrnum. Ekki dugði til að allt væri lokað og læst:

„Skúrinn var harðlæstur og framhliðin snýr út í götu. Út í garðinn er hurð sem var  vel læst og allir gluggar voru lokaðir. Þeir brutu sér leið inn með kúbeini, brutu upp læsinguna og fóru inn.“

Lögreglumenn sem komu á vettvang í gærkvöld og skoðuðu verksummerki tjáðu konunni og eiginmanni hennar að líklega hefði engu máli skipt hve margir lásar hefðu verið fyrir hurðinni, mennirnir hefðu ávallt brotið sér leið inn.

Þjófarnir létu eldri og verðminni búnað eiga sig og einnig snertu þeir ekki við dýrum málverkum sem eru í bílskúrnum. Konan segir vinnubrögðin bera þess merki að það sem var tekið hafi annars vegar verið það verðmætasta og hins vegar hlutir sem hægt er að koma hratt í verð.

„Þetta var ekkert venjulegt innbrot í bílskúr heldur þaulskipulögð aðgerð,“ segir konan sem reynir að binda vonir við að rannsókn lögreglu leiði til enduheimtar þýfisins.

Töluvert hefur verið um innbrot í Langholtshverfi undanfarið og íbúar eru hvattir til að vera á varðbergi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar

Jóhann játar sök varðandi vörslu og dreifingu barnaníðsefnis – Svarar til saka 15. febrúar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda