fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Unglingar með vopn í skólanum – „Þau eru einfaldlega geymd í skólatöskunni“

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 18. október 2022 19:43

Mynd úr safni/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tillögu Flokks fólksins um stofnun stýrihóps til að bregðast við auknum vopnaburði meðal unglinga var á borgarstjórnarfundi í dag vísað til meðferðar mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs.

Helga Þórðardóttir, varaborgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði tillöguna fram en Magnús Davíð Norðdahl, borgarfulltrúi Pírata, lagði til þá málsmeðferðartillögu að vísa málinu til ráðsins. Það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Í greinargerð með tillögu Flokks fólksins segir meðal annars: „Ekkert okkar hefur farið varhluta af fréttum um aukið ofbeldi meðal ungmenna í Reykjavík sem og víðar og fjölgun stunguárása. Reykjavíkurborg þarf að bregðast við. Fara þarf inn í skólana, íþrótta- og tómstundahreyfinguna í borginni og ná til barnanna og foreldra þeirra.“

Helga Þórðardóttir

Þar er ennfremur fjallað um hvers konar vopn sé algengast að unglingar noti: „Oftast er um að ræða hnífa en einnig, hnúajárn og hamra og jafnvel öxi. Dæmi eru um að ungmenni gangi um með vopn af þessu tagi í skólanum og eftir skóla. Þau eru einfaldlega geymd í skólatöskunni. Hér er um raunverulegt vandamál að ræða sem við í borginni verður að taka alvarlega. Það líður varla sú vika að ekki berast fréttir af því að einhver er stunginn eða illa barinn með vopni af einhverju tagi í miðbæ Reykjavíkur. Um er að ræða gróf ofbeldisverk. Þetta eru ekki slagsmál heldur hnífstungur og skurðir.“

„Ég hef sjálfur verið fórnarlamb tilefnislausrar árásar“

Magnús þakkaði Flokki fólksins fyrir að vekja athygli á málinu og málaflokknum. „Ég hef sjálfur verið fórnarlamb tilefnislausrar árásar og mér hefur verið hótað með eggvopni,“ sagði hann í pontu. Hann sagði ennfremur að fjöldi þessara mála sé slíkur að ekki geti verið um tilviljun að ræða heldur sé líklega eitthvað í okkar samfélagi, að loknum heimsfaraldri, sem hafi áhrif.

Hann sagðist þó hafa efasemdir um framsetningu tillögunnar og að hann teldi hana of sértæka, en í tillögunni sjálfri var einungis talað um eggvopn, en önnur setning tillögunnar er svohljóðandi: „Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík.“

Magnús Davíð Norðdahl

Magnús benti einnig á að „ofbeldisalda“ meðal ungmenna snerist ekki aðeins um vopnaburð heldur um svo margt meira, til að mynda bakslag í hinsegin baráttunni, einelti og ýmsa hatursorðræðu.

Þá deildi hann með borgarfulltrúum orðum Sæunnar Kjartansdóttur sálgreinis sem telur að fjármunum skattborgara sé betur varið í að styrkja tengsl barna og foreldra en að seinna greiða sérfræðingum til að reyna að bæta rofin tengsl.

Hann benti síðan á að næsti fundur mannréttinda- og ofbeldisráðs borgarinnar væri helgaður ofbeldisvarnarmálum, en Magnús er formaður ráðsins, og þar stæði til að ræða einmitt þetta. Hann lagði síðan til að tillögunni yrði vísað til ráðsins sem var samþykkt.

Tillaga Flokks fólksins hljóðar svo:

„Bylgja ofbeldis hefur riðið yfir á meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem kortleggur aukinn vopnaburð eggvopna meðal ungmenna í Reykjavík. Einnig meta viðbrögð borgarinnar sem lýtur að forvörnum. Hópurinn myndi hafa það hlutverk að koma með drög að hugmyndum um hvernig bregðast megi við auknum vopnaburði hjá ungu fólki sem er mikið áhyggjuefni. Tölulegar staðreyndir sýna að útköllum lögreglu og sérsveitar hefur fjölgað í meira magni vegna eggvopna þar sem ungt fólk kemur við sögu sem gerendur. Flokkur fólksins telur mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og leggist yfir stöðuna, viðbrögð, aðgerðir og forvarnir sem lúta að þessari neikvæðu þróun. Verið er að undirbúa breytingu á vopnalögum. Reglur eru þegar vissulega strangar en engu að síður er aukning í að ungt fólk grípi til hnífa með það að markmiði að skaða annan einstakling. Erfitt er að ná utan um skráningu eggvopna. Sá hópur sem hér er lagður til að verði settur á laggirnar mun hafa samvinnu við skóla- og frístundasvið, velferðarsvið og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð og aðra eftir atvikum. Kjarnaspurningin er: Hvernig getur Reykjavíkurborg beitt sér vegna aukins ofbeldis ungmenna þar sem eggvopn koma við sögu?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Þjóðin fer ekki í leikhús til að sjá bókhaldið, hversu vel sem það kann að vera fært“

„Þjóðin fer ekki í leikhús til að sjá bókhaldið, hversu vel sem það kann að vera fært“
Fréttir
Í gær

„Ég hef ýmislegt heyrt og séð í viðræðum en að samninganefndum stéttarfélaga sé sagt að panta tíma hjá forstjóranum, það er algjört met“

„Ég hef ýmislegt heyrt og séð í viðræðum en að samninganefndum stéttarfélaga sé sagt að panta tíma hjá forstjóranum, það er algjört met“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda

Landsréttur sneri við dómi úr héraði – Kennari fær skaðabætur eftir að hafa slasast við árás nemanda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tekur upp boltann fyrir Brynjar Karl – „Vil frekar þjálfara með ástríðu en flatan karakter sem mótiverar ekkert“

Tekur upp boltann fyrir Brynjar Karl – „Vil frekar þjálfara með ástríðu en flatan karakter sem mótiverar ekkert“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tálbeituhópur neitar ásökunum um fjárkúgun – „Ef þú skráir þig þarna þá veistu að þú ert að fara að horfa á ólöglegt efni“

Tálbeituhópur neitar ásökunum um fjárkúgun – „Ef þú skráir þig þarna þá veistu að þú ert að fara að horfa á ólöglegt efni“