Lögmaður Aldísar Schram, Gunnar Ingi Jóhannsson, segir ummæli Agnesar Bragadóttur um Aldísi Schram vera meiðandi og ósönn. Hún hafi ekkert komið fram með sem styðji sannleiksgildi ummælanna enda séu þau uppspuni.
Aðalmeðferð var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í meiðyrðamáli Aldísar Schram gegn Agnesi Bragadóttur vegna Facebook-færslu sem Agnes birti í desember árið 2021.
Í færslunni sakaði Agnes Aldísi annars vegar um að standa á bak við málaferli Carmenar Jóhannsdóttur gegn Jóni Baldvin sem vörðuðu ásökun um kynferðislega áreitni, hins vegar um að hafa reynt að nauðga sér í heimsókn Agnesar til Aldísar á geðdeild Landspítalans árið 1998.
Gunnar gerði athugasemd við það að vörn Agnesar væri annars vegar fólgin í því að ummæli hennar væru sönn og hins vegar að þau væru gildisdómur og hún væri að segja frá upplifun sinni. Ekki væri hægt að byggja á hvorutveggja og Agnes hefði ekki lagt neitt fram ásökunum sínum til sönnunar.
Gunnar benti ennfremur á að varðandi ásakanir gegn Jóni Baldvin hefðu verið lögð fram ýmis gögn og leiddir fram vitnisburðir þeim til stuðnings. Slíku væri hins vegar ekki til að dreifa í þessu máli. Ummælin væru einfaldlega móðgandi og meiðandi. Auk þess fælist í þeim hótun um að halda áfram með þetta ef Aldís hætti ekki að „pönkast í vini hennar, Jóni Baldvin.“ Agnes hefði hótað að sverta mannorð Aldísar ef Aldís hætti ekki að bera út ásakanir á Jón Baldvin.
„Það eru alltaf einhverjir sem styðja Jón Baldvin,“ sagði lögmaðurinn og sagði að margt hefði komið fram sem styddi ásakanir gegn honum um kynferðisbrot. „Ennþá eru að finnast dagbækur úti í bæ sem greina frá kynferðisbrotum,“ sagði lögmaðurinn.
Gunnar benti jafnframt á að færsla Agnesar hefði verið öllum opin og mörg þúsund manns hefðu haft aðgang að henni. „Þetta er engin smá útbreiðsla. Og þess vegna var þetta pikkað upp af fjölmiðlum, þetta var fyrir opnum tjöldum.“
Lögmaður Agnesar, Konráð Jónsson, benti á að horfi þurfi til þess að Agnes var með ummælum sínum að stíga inn í ákveðna umræðu sem hafði verið í gangi og hefði verið illkvittin. Hann lagði einnig fram Faccebook-færslur Aldísar sem eru uppfullar af ásökunum í garð foreldra sinna.
Konráð sagði að ummæli Agnesar hefðu ekki verið tilhæfulaus og þau höfðu verið lögð fram í góðri trú. Konráð benti á að Aldís hefði opinberlega haldið því fram að faðir sinn hefði brotið gegn sér kynferðislega og gegn öðrum konum og að Bryndís hefði stutt hann í því. Þessar ásakanir hefðu aldrei verið sannaðar fyrir dómi. Inn í þessa umræðu hefði Agnes verið að stíga með sínum ummælum og það yrði að leggja mat á þau í því ljósi.
Lögmaðurinn viðurkenndi að fullyrðingar Agnesar um að Aldís stæði á bak við málaferli Carmenar gegn Jóni Baldvin væru matskenndar. Hún byggi meðal annars á því móðir Carmenar, Laufey, og Aldís, séu mjög nánar vinkonur.
Varðandi meinta nauðgunartilraun Aldísar gagnvart Agnesi sagði lögmaðurinn að um væri að ræða frásögn sem væri sönn frá sjónarhóli Agnesar. Hún hafi gert ágætlega grein fyrir því hvers vegna hún hefði ekki kært atvikið en áður hefur komið fram að Agnes segist ekki hafa sagt neinum frá atvikinu nema Jóni Baldvin og Bryndísi og hún hafi borið þessa minningu innra með sér árum saman og liðið illa vegna atviksins.
Lögmaðurinn benti á að metoo-byltingin hefði gefið þolendum aukið svigrúm til að tjá sig um reynslu sína án þess að geta fært sönnur á atvik. Það ætti við í þessu tilviki. Ef sá hluti ummæli Agnesar sem lýtur að nauðgunartilrauninni meintu myndi leiða til sakfellingar hennar þá væri þessi réttur þolenda fyrir borð borinn. Ekki sé hægt að krefjast þess að Agnes færi sönnur á ummæli sín með sama hætti og krafist er sönnunar um sekt fyrir dómi í sakamáli.
Hann benti ennfremur á að ekki væri hægt að sakfella Agnesi fyrir ummæli sem væru sönn í reynsluheimi hennar.
Þá mótmælti lögmaðurinn því harðlega að Agnes hefði látið ummælin falla gegn betri vitund og staðhæfði að þau hefðu verið lögð fram í góðri trú.
Hann sagði einnig að Agnes væri ekki í neinni aðstöðu til að færa sönnur á atvikið á sjúkrastofunni, þegar Aldís á að hafa reynt að nauðga henni, engin vitni væru til staðar og hún hefði engan aðgang að sjúkragögnum Aldísar.
Lögmaður Aldísar, Gunnar Ingi, tók aftur til máls og lýsti þeirri skoðun að Agnes hefði ekki verið í góðri trú þegar hún skrifaði færsluna. „Hún getur ekki hafa verið í góðri trú. Henni datt þetta bara í hug.“ – Hann benti á að í meiðyrðamáli sem Ingó Veðurguð tapaði gegn Sindra Þór Sigríðarsyni hefði það haft mikið vægi að Sindri taldist hafa látið ummæli sín falla í góðri trú. Slíku væru hins vegar ekki til að dreifa í þessu máli. Agnes hefði líka ekkert lagt fram máli sínu til stuðnings ólíkt máli Ingós og öðrum meiðyrðamálum þar sem hinir stefndu hafa verið sýknaðir vegna ummæla sinna um kynferðisbrot.
Gunnar Ingi sagði það líka alrangt að Aldís hefði átt frumkvæði að ásökunum á hendur Jóni Baldvin sem aðrar konur hafa lagt fram. Það hefði ávallt verið málsvörn Jóns Baldvins í þeim málum að benda á hana og hafi það verið einskonar „strámaður“. Agnes hefði með færslunni ekki verið að bregðast við neinum ummælum Aldísar.
Lögmaður Agnesar, Konráð, mótmælti með þunga að Agnes hefði ekki látið ummæli sínu falla í góðri trú. Það hefði hún gert en henni bæri ekki að sanna sanngildi fullyrðinga sinna er hún lýsti eigin upplifun.