Í greininni útskýrir Natan að í dag séu fjölskyldumynstur orðin mun fjölbreyttari en þau voru hér á árum áður og að því sé kominn tími til að breyta hjónaböndum í lagalegum skilningi. „Fjölskyldan er ekki endilega mamma, pabbi og börn sem búa saman, jafnvel með afa og ömmu, líkt og tíðkaðist á tímum afa okkar og ömmu. Fjölskylduheildin er orðin mun fjölbreyttari,“ segir hann í greininni.
„Vinir okkar og skyldmenni eru ekki endilega að festa sig við einn maka heldur hafa fundið hamingjuna með mörgum einstaklingum. Fleiri og fleiri eru að opna sambönd sín fyrir því að eiga rekkjunauta utan sambandsins. Allt eru þetta hlutir sem voru mikið tabú fyrir ekki alltof mörgum árum.“
Natan segir að þar sem einstaklingar kjósa að haga lífi sínu og hvernig þau skilgreina fjölskyldu sína og sitt nánasta fólk á fjölbreyttari hátt en áður þá sé kannski kominn tími til þess endurskoða aðkomu ríkisins að þessum málum. „Jafnvel hvort ríkið eigi yfirhöfuð að skipta sér að því hvernig við ákveðum að haga hjúskap okkar og ást.“
„Er ekki kominn tími á það að ríkið fari að ganga á sama hraða og samfélagið sem það á að sjá um og viðurkenna að við erum ekki öll vísitölufjölskylda, heldur kemur líf okkar í alls konar gerðum. Er kannski kominn tími á að við köstum hjónabandinu á öskuhauga sögunnar og byrjum að taka á móti fólki eins og það það er í allri sinni dýrð?“
Í samtali við DV um greinina bendir Natan á að í dag séu alls konar fjölbreytt sambandsform orðin mun algengari en áður. Hann nefnir þar til dæmis fjölkæri en meira hefur verið rætt opinskátt um slík sambönd í fjölmiðlum að undanförnu. Natan bendir á að það er ýmislegt í samfélaginu sem hamlar fólki í slíkum samböndum, það geti til dæmis ekki fengið eins stuðning og hefðbundin pör fá við kaup á fyrstu fasteign. „Það er aldrei gert ráð fyrir því að þetta séu fleiri en tveir einstaklingar,“ segir hann.
„Svo er það líka erfðarétturinn. Erfðaréttur á Íslandi er þannig að þú ráðstafar aðeins einum þriðja hluta eigna þinna í gegnum erfðaskrá, hitt deilist milli lögerfingja. Þá er það í raun og veru þannig að ef fólk er ekki í sambandsformi sem er skilgreint samkvæmt lögum þá er það að falla á milli kerfa.“
Natan segir að ríkið eigi ekki að vera með fyrirfram gefnar reglur um það hvernig fólk á að lifa sínu lífi. „Ríkið á frekar að aðlaga sig að því hvernig fólk vill lifa lífinu. Ef fólk vill blessa sig í kirkju og eitthvað svoleiðis þá er því guð velkomið að gera það en hjónabandið sem stofnun sem ríkið á að skilgreina, það er svolítið barn síns tíma og er frekar dautt,“ segir hann.
„Ríkið á ekki að vera að skilgreina að kirkjuleiðin að hjónabandi sé hið eina rétta sambandsform.“
Natan segir að hægt sé að leysa þetta með því að koma auknu frelsi fyrir í hjúskaparlögunum, að ríkið hætti að gera ráð fyrir því að sambönd séu öll eins. „Fólk gæti þá keypt íbúð með mökunum sínum og nýtt sér úrræði eins og fyrstu fasteignakaup þó svo þau séu fleiri en tvö.“