Að þessu spyr leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Í færslunni, sem hefur vakið töluverða athygli, segir Ilmur að strákurinn hennar hafi áhuga á lestri og lesi mjög vel. „Þegar hann les upphátt fyrir mig legg ég áherslu á að hann lesi fallega og að hann skilji það sem hann les,“ segir hún.
„En það virðist ekki vera lögð áhersla á það í skólanum, bara að hann lesi hratt. Um daginn kom hann heim úr skólanum og rétti mér blað, ég sá á líkamstjáningunni að hann skammaðist sín. Á blaðinu var helvítis hraðalínuritið -sem hafði farið niður á við, honum hafði farið aftur. Ég snöggreiddist og reif blaðið í tvennt, honum brá en skömmin vék fyrir undrun.“
Ilmur segist hafa orðið reið því daginn áður hafði hún verið að hrósa honum fyrir framfarir í lestrinum. „Hann er nefnilega farinn að lesa með tilfinningu, ég sé að hann kemur sjálfum sér á óvart þegar hann les og ég sé að hann eflist við það. Enda getur það verið mjög valdeflandi að heyra rödd sína hljóma,“ segir hún.
Þá bendir Ilmur á að dóttir hennar hafi lent í því sama og strákurinn hennar er að lenda í núna. „Þegar dóttir mín var í 3. bekk stoppaði íslenskukennarinn hennar mig útá götu til að hrósa henni, hvað hún læsi fallega og hvað það væri gaman að hlusta á hana. Svo fóru einkunnirnar hennar að dala, hún hélt ekki í við hraðann sem verið var að mæla. Hún fór líka að missa áhugann,“ segir Ilmur.
„Í foreldraviðtali í 7. bekk spurði hún sjálf kennarann sinn, þegar kom að gagnrýni á leshraða hjá henni, hvort hún ætti bara að buna útúr sér textanum án þess að skilja hann? – Það var fátt um svör enda virðist enginn skilja tilganginn með þessu. Ekki kveikir þetta áhuga á lestri, ekki eykur þetta skilning og ekki er þetta valdeflandi, svo mikið er víst.“
Ilmur gagnrýnir harðlega þessa áherslu á leshraða í menntakerfinu. „Ég hef heyrt að það liggi einhver vísindi á bak við þetta en aldrei hvaða vísindi. Eru þau vísindi sem sýna að 38% barna sem útskrifast úr grunnskóla nái ekki grunnfærni í lesskilningi ekki næg vísindi til að sanna að þessar aðferðir virki ekki? -Eða er sá sem tók ákvörðunina um að þetta sé rétta leiðin kannski æviráðinn eins og flestir stjórnendur í íslensku menntakerfi?“
Að lokum segist hún vita að hún geti haft áhrif á sín börn og lagt sjálf áherslu á að þau lesi fallega. Ljóst er þó að það sem skólinn segir hefur meiri áhrif á son hennar.
„Ég hef nú ekki meiri áhrif en svo að áðan þegar við sonur minn vorum að fylla út blað fyrir foreldraviðtal og hann er þar spurður hvað hann vilji gera betur í skólanum, þá svarar hann „ég vil lesa hraðar“.“