TV2 skýrir frá þessu og byggir á gögnum frá samgöngustofnuninni sem sjónvarpsstöðin fékk afhent á grundvelli upplýsingalaga.
Thomas Galasz Nielsen, yfirmaður hernaðartæknideildar danska varnarmálaskólans, sagði í samtali við TV2 að það verði að taka atburð af þessu tagi alvarlega. Þetta sé kerfi sem sé notað til að halda flugvélum og skipum á réttri stefnu. Hann benti einnig á að hvað varðar flugumferð sé varakerfi, sem byggir á útvarpsbylgjum.
Það kerfi virkar mjög vel sagði Jesper Zahariassen, aðstoðarflugrekstrarstjóri hjá SAS flugfélaginu. Hann sagði að það hafi engin áhrif á öryggi stórra flugvéla þótt GPS-kerfið hætti að virka en geti komið sér illa fyrir litlar vélar sem séu ekki með sama varakerfi.
Hann sagði að það komi fyrir að GPS-merkin hverfi en það hafi ekki gerst áður í Danmörku. „Þetta er ekki neitt sem við höfum lent í, í Danmörku. Þetta er eitthvað sem við sjáum venjulega á átakasvæðum. Í Norður-Noregi, nærri rússnesku landamærunum, þar sem Rússarnir trufla merkjasendingarnar og í austanverðu Miðjarðarhafi,“ sagði hann.
Búið er að strika yfir mestan hluta þess sem kemur fram í gögnunum sem TV2 fékk afhent og var það gert með tilvísun í að um „öryggi ríkisins eða varnir ríkisins“ sé að ræða. Af þeim sökum kemur ekki fram í frétt TV2 hvað gæti hafa valdið þessu.