Neyðarboð bárust úr strætisvagni til lögreglu í dag um að tveir farþegar hefðu ráðist á vagnstjórann. Annar mun hafa tekið upp hníf og ógnað bílstjóranum með honum. Málið er í rannsókn lögreglu en ekki er vitað hvort bílstjóranum varð meint af árásinni.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu sem barst fjölmiðlum á sjöunda tímanum undir kvöld. – Þar segir einnig frá ógnandi tilburðum manns í borignni og er lögregla kom á vettvang kom í ljós að sami maður var grunaður um þjófnað fyrr í dag en þá hafði hann komist undan. Eitthvað af þýfinu fannst á manninum. Maðurinn var handtekinn og vistaður vegna rannsóknar málsins.
Tilkynnt var um yfirstandandi innbrot til lögreglu. Þegar lögregla kom á vettvang var innbrotsþjófurinn ofurölvi og áttavilltur, að því er segir í dagbók. Var manninum ekið heim til sín.