„Það getur farið svo, óháð því hvernig stríðinu lýkur, en ef Pútín tapar því eða virðist vera að tapa því, þá er hugsanlegt að honum verði ýtt úr embætti.“
Þetta sagði Tor Bukkvoll, sérfræðingur hjá rannsóknarstofnun norska hersins, í samtali við Norska ríkisútvarpið.
Hann sagði að ef reynt verði að bola Pútín frá völdum þá muni þeir sem það gera annað hvort koma úr röðum þeirra sem styðja stríðið en gætu vel hugsað sér að losna við Pútín því þeim finnst hann ekki haga stríðsrekstrinum skynsamlega. Þeir geta einnig komið úr röðum þeirra sem hafa verið á móti stríðinu frá upphafi og þeirra sem eru með eða á móti stríðinu eftir því hvernig það gengur hverju sinni. Þar sem stríðsreksturinn gangi ekki vel núna þá sé þessi hópur líklega á móti stríðinu eins og er.
Hann sagði að ekki sjáist bein merki um að annar hvor þessara hópa sé reiðubúinn til að taka völdin núna en það sjáist aukin merki um óánægju.
„Einnig opinberlega í rússnesku sjónvarpi. Það heyrist mikið um að Pútín njóti ekki virðingar innan elítunnar núna en að fólk hræðist hann mikið. Það getur komið að þeim tímapunkti að kostnaðurinn við að halda stríðinu áfram verður meiri en hræðslan við að reyna að ýta honum frá völdum,“ sagði Bukkvoll.