fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Rifist um hvort reisa eigi styttu af Ye í Vesturbænum

Máni Snær Þorláksson
Föstudaginn 14. október 2022 13:25

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2020 sendi tónlistarmaðurinn Aron Kristinn Jónasson inn tillögu í Hverfið mitt, hugmyndasamkeppni Reykjavíkurborgar, sem varð síðan vinsælasta hugmyndin í Vesturbænum. Hugmynd Arons var að reisa styttu af tónlistarmanninum Ye, sem áður hét Kanye West, en þrátt fyrir að hugmyndin hafi fengið flest atkvæði varð hún ekki að raunveruleika.

Aron fékk nefnilega tilkynningu frá borginni þar sem honum var tjáð að fagteymi verkefnisins þætti hugmyndin ekki tæk. Rökin fyrir því voru nokkur, hugmyndin hafi ekki listrænt gildi, hún sé ekki listræn áskorun og að það tíðkist ekki lengur að gera brjóstmyndir. Þá kom einnig fram í tilkynningunni að ýmis lögfræðileg álitamál gætu komið í veg fyrir að styttan yrði reist, eins og friðhelgi einkalífsins.

Sjá einnig: Reykjavíkurborg hunsaði vinsælustu tillöguna – „Fasisminn lifir og opna lýðræðið hefur brugðist“

Þó svo að fagteymið hafi komið í veg fyrir að Aron fengi styttuna í Vesturbæinn þá gafst hann ekki upp og sendi hugmyndina aftur í samkeppnina í ár. Í lýsingu hugmyndarinnar segir Aron að styttan yrði eflaust „eitt merkasta kennileiti“ Vesturbæjar og að hún færi í „sögubækur dægurmenningar“. Auk þess fullyrðir hann að verkefni muni rata í heimsfjölmiðla og að það muni leiða til þess að aðdáendur Ye frá öllum heimshornum myndu flykkjast til Vesturbæjar til þess að virða fyrir sig styttuna.

Aron leggur til að borgarstjórn bjóði Ye til Vesturbæjar við vígslu styttunnar, það er að segja ef hún verður reist. Hann segist vera búinn að setja sig í samband við myndhöggvara og að framkvæmd við styttuna þurfi ekki að vera dýr. Þá segir hann að styttan yrði unnin í samstarfi við myndhöggvara og með leyfi.

Rætt var við Aron í Íslandi í dag í síðustu viku um hugmyndina. Þar lýsti hann yfir óánægju sinni með Reykjavíkurborg fyrir að láta hugmyndina ekki verða að veruleika í síðustu kosningum. „Það var náttúrulega bara rýtingur í bakið að vera með lýðræðiskosningu, þar sem maður er með hugmynd sem fær langflest atkvæði en ratar ekki inn í áframhaldandi kosningu sem er í raun handvalin af nokkrum aðilum sem enginn veit hverjir eru,“ sagði Aron.

Þá hvatti hann fólk til að nýta atkvæðin sín í íbúakosningunni. „Við verðum bara að miða að því að það komi stytta af Ye hér. Í næstu kosningum mun ég henda þessu aftur inn ef þetta verður ekki gert. Árið 2025 mun ég gera það aftur og ég verð bara eins og rispaður geisladiskur þar til gestir Vesturbæjarlaugar fá að virða fyrir sér styttu af Ye.“

„Það eru hugmyndir eins og þessi sem gefa borgum raunverulegan og varandi karakter“

Þessi endurfæðing hugmyndarinnar hefur fengið mörg atkvæði í íbúakosningunni en þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 400 manns kosið hugmyndina. Það er þó ljóst að hún er umdeild því rúmlega 100 manns hafa kosið gegn henni. Á síðu hugmyndasamkeppninnar er að finna rök með og á móti hugmyndinni og hafa alls 34 fært rök fyrir sínu atkvæði í kosningunni um það hvort reisa eigi styttu af Ye.

Rök þeirra sem kjósa með hugmyndinni eru flest á svipuðum nótum, Ye sé einn magnaðasti listamaður síðari tíma og á skilið viðurkenningu sem slíkur. Þá er Reykjavíkurborg einnig gagnrýnd harðlega fyrir að hafa ekki leyft lýðræðinu að ráða för í síðustu íbúakosningum þar sem þessi sama hugmynd vann stórsigur. „Þessi stytta var óumdeildur sigurvegari í fyrra og ef hún kemst ekki í framkvæmd er þetta allt saman (lýðræðið) tómur skrípaleikur. Ég myndi vilja sjá þessa styttu gyllta og glansandi og helst 3ja metra háa,“ segir til að mynda Elsa nokkur.

Maður að nafni Karl Ólafur segir svo að hugmyndin sé frábær og löngu tímabær: „Reykjavík gæti verið svo áhugaverð og skemmtileg ef við aðeins leyfðum okkur að láta verða af djörfum og skapandi hugmyndum sem þessum. Það eru hugmyndir eins og þessi sem gefa borgum raunverulegan og varandi karakter. Það er kominn tími til að við virkjum þennan sköpunarmátt og látum vaða á að leyfa honum að njóta sín.“

Samúel nokkur bendir svo á að Ye gerði lagið Devil in a New Dress og spyr hvort það þurfi fleiri ástæður til að mæla með hugmyndinni.

„Vandræðalegt og óviðeigandi að heiðra hann með þessum hætti“

Eins og áður segir eru þó ekki öll fylgjandi hugmyndinni. Gunnar nokkur segir til dæmis að hann hafi síðast stutt hugmyndina en að nú sé hann á móti. Þessi stefnubreyting Gunnars stafar af því hvernig Kanye hefur komið fram að undanförnu en hann hefur til að mynda verið ásakaður um gyðingahatur. Auk þess hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir að klæðast fatnaði með textanum: „White Lives Matter.“

„Studdi þessa hugmynd síðast en eftir að kemur betur í ljós hvað Ye er lame gaur þá súrnar hugmyndin hressilega. Væri til í eins og einn Keanu Reeves frekar, óþarfi að hafa styttur af pakki þegar hægt er að hafa styttur af góðum gaurum,“ segir Gunnar.

Þórhildur nokkur er einnig á móti hugmyndinni vegna framkomu Ye í gegnum tíðina. „Ég er almennt á móti styttum af lifandi fólki og sérstaklega ótengdum einstaklingum, en þessi maður beitti fyrrverandi konu sína mjög sýnilegu ofbeldi á samfélagsmiðlum, styður hvíta yfirburði og gerir almennt hluti sem ég vil ekki fagna í hverfinu. Ef það er vilji til að fagna fólki sem heitir West, mæli ég með Mae West,“ segir hún.

Magnús nokkur tekur í svipaða strengi: „Hann er óneitanlega áhrifamikill listamaður en vegna skoðana hans og hegðun þá fyndist mér vandræðalegt og óviðeigandi að heiðra hann með þessum hætti.“

Þá segir kona að nafni Elín að meira en nóg sé af styttum af karlmönnum í borginni og að það þurfi ekki að bæta einni við. „Væri skárra að fá styttu af Beyonce og rétta þannig kynjahlutföllin í styttumenningunni,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti

Ævintýralega löng flugferð frá Tenerife til Akureyrar: Enduðu í Glasgow eftir átta tíma flug – Mikið klappað þegar vélin loksins lenti
Fréttir
Í gær

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”

Elín: „Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að réttlæta og verja starfið mitt”
Fréttir
Í gær

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi

Jón Gnarr fær þingsæti þrátt fyrir skilorðsbundinn dóm – Tvíhöfði truflaði Alþingi með gríninnslagi
Fréttir
Í gær

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust

Árásin í Svíþjóð: „Þið ættuð að yfirgefa Evrópu“ – Sýrlendingar meðal þeirra sem létust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni

Vendingar í rannsókn dularfyllsta morðmáls Evrópu – Böndin beinast að tæpum svissneskum sérsveitarmanni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“

Brynjar Karl birtir myndband sér til varnar – „I rest my case, your honor!“