Þann 27. maí síðastliðinn voru líkamsleifar Kristins Hauks Jóhannessonar grafnar upp úr kirkjugarði á Vestfjörðum af hálfu Lögreglunnar á Vestfjörðum vegna ákvörðunar um að rannsaka betur andlát hans sem varð í bílslysi þann 23. september árið 1973. Slysið varð er leigubíll Höskuldar Guðmundssonar fór út af Óshlíðarvegi og niður hlíðina.
Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því í færslu á Facebook-síðu sinni í dag að lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafi ákveðið að hætta rannsókn málsins. „Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekkert bendi til annars en að farþeginn hafi látist af afleiðingum umferðarslyss. Eins og ávallt er ákvörðun lögreglustjóra um lyktir mála kæranleg til ríkissaksóknara,“ segir í færslunni.
Ástæðan fyrir því að líkamsleifarnar voru grafnar upp í maí er sú að nánustu ættingjar hins látna óskuðu eftir því í apríl síðastliðnum að málið yrði tekið upp á ný. Ættingjarnir héldu því fram að rannsókn málsins á sínum tíma hafi verið ábótavant. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafnaði beiðni ættingjanna á þeim forsendum að engin ný gögn hefðu borist. Sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara sem lagði fyrir lögregluna á Vestfjörðum að taka til skoðunar ljósmyndir af bílflakinu sem teknar voru á sínum tíma.
Lögreglan á Vestfjörðum tók ljósmyndirnar til rannsóknar og óskaði í kjölfarið eftir heimild til að grafa upp líkamsleifar hins látna. Eftir að hafa fengið það samþykkt hjá ættingjum og Héraðsdómi Vestfjarða voru líkamsleifarnar færðar til rannsóknar hjá réttarlækni sem er nú búinn að skila lögreglu ítarlegri skýrslu um dánarorsök.
„Eins og ávallt er ákvörðun lögreglustjóra um lyktir mála kæranleg til ríkissaksóknara. Nánustu ættingjum hins látna hefur verið kynnt niðurstaðan. Lögreglan mun ekki fjalla frekar um mál þetta í fjölmiðlum,“ segir í lokin á færslu lögreglunnar um málið.