The Sun skýrir frá þessu og segir að Shirreff hafi hvatt Vesturlönd til að halda áfram að beita Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, þrýstingi.
Hann sagðist telja að það stefni í algjört hrun rússneska hersins en það yrðu þá mestu hörmungar rússneska hersins í heila öld.
Shirreff sagði að úkraínski herinn verði hugsanlega búinn að hrekja rússneska herinn frá Úkraínu fyrir árslok.
Í kjölfar árása Rússa á úkraínskar borgir síðustu daga, í hefndarskyni fyrir sprenginguna á Krech-brúnni á laugardaginn, hafa margir viðrað áhyggjur sínar af hversu langt Pútín sé reiðubúinn til að ganga. Shirreff sagði að hættan, þar á meðal af kjarnorkuvopnum, sé hvergi nærri liðin hjá þrátt fyrir ósigra Rússa á vígvellinum. „Við eigum að taka kjarnorkuvopnaógnina mjög alvarlega, en við eigum alls ekki að gefa neitt eftir og ég er mjög ánægður með viðbrögð Vesturlanda. En ef við höfum heitið öflugri hefnd á einn eða annan hátt, þá verðum við að undirbúa okkur undir verstu sviðsmyndina og hún er stríð við Rússland,“ sagði hann og bætti við: „Það verður ekki friður í Evrópu á meðan Pútín, stjórn í hans anda eða öfgaþjóðernissinni ráða ríkjum í Kreml.“