Fréttablaðið fjallar um þetta mál í dag og bendir á verðkönnun Veritabus á matvöru, sem blaðið hefur fjallað um í vikunni. Í henni kemur fram að talsverður munur er á verðbreytingum á milli einstakra vöruflokka.
Mjólkurvörur hækkuðu um 2% á milli ágúst og október en brauðmeti lækkaði um 1%. Kjöt og fiskur hækkaði um 5% en dósamatur og þurrmatur, sem eru að mestu innfluttar vörur, lækkuðu um 1%.
Haft er eftir Gunnari E. Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Samkaupa, að fyrirtækið hafi rætt við 10 stærstu birgja sína, framleiðendur og heildsala, og óskað eftir 5% verðlækkun til áramóta sem myndi ganga að fullu áfram til neytenda. Enginn þeirra sá sér fært að verða við þessari ósk.
Matarkarfan lækkaði um 3,3% í Nettó og sagði Gunnar það aðallega skýrast af því að þær vörur sem Nettó flytur sjálft inn hafa lækkað í verði og hafi sú lækkun runnið til neytenda.
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Inness, sagði að ekki sé farið að bera á verðlækkunum hjá erlendum birgjum. Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri hjá Hagkaupum, tók í sama streng og sagði að dregið hafi úr verðhækkunum og þær hafi í sumum tilfellum stöðvast en ekki sé farið að bera á verðlækkunum.